145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

flugþróunarsjóður.

636. mál
[16:25]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að þetta er mikilvægt verkefni. Það er mikilvægt af mörgum ástæðum, fyrst og síðast ef við erum að horfa á uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem heilsársatvinnugreinar eins og við sjáum hana hér á sístækkandi landsvæði sunnan lands, hversu miklu það breytir bæði fyrir efnahagslífið almennt en ekki síður fyrir samfélagið á staðnum eins og fyrirspyrjandi nefndi. Þetta er skýrt og klárt markmið sem við höfum sett okkur um að dreifa ferðamönnunum. Nú tala ég eins og þetta sé einhver flokkur sem hægt er að dreifa að vild en það er að sjálfsögðu ekki þannig heldur verðum við að gera þetta í markaðssetningu okkar og að vekja athygli eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á. Það er akkúrat það sem þetta verkefni miðar að.

Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir vakti líka athygli á þætti Íslandsstofu og ég bendi henni á að Íslandsstofa á einmitt stjórnarmann í sjóðnum þannig að við munum gæta þess að allir séu að senda sömu skilaboðin.

Hvað varðar jöfnun flugeldsneytiskostnaðar er það mikilvægt atriði sem kom m.a. fram í skýrslu nefndar forsætisráðherra þar sem var vakin athygli á þeirri skökku samkeppnisstöðu. Það er nokkuð sem við erum að láta skoða. Fjármálaráðuneytið kemur að sjálfsögðu með okkur í það, en þetta er klárlega einn af þeim þáttum sem skekkja samkeppnisstöðuna á milli Keflavíkurflugvallar og flugvallanna úti á landi og þarf að gæta að ef við ætlum að ná árangri.