145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

málefni Stjórnstöðvar ferðamála.

750. mál
[16:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því hafa borist fregnir að Hörður Þórhallsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, sé að hætta sem framkvæmdastjóri og segir orðrétt í frétt á vef ráðuneytisins frá 5. maí, með leyfi forseta:

„Hann mun hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er staðan á starfsmannamálum Stjórnstöðvar ferðamála? Hefur ráðherrann í hyggju að auglýsa stöðuna eins og búið var að tilkynna? Hvernig verður því ráðningarferli háttað? Miðað við þá aukningu á ferðamönnum sem áætluð er getur ráðherra upplýst um það hvort Stjórnstöð ferðamála hafi í hyggju að fjölga starfsfólki eða mæta því álagi sérstaklega sem fram undan er?

Sama dag og þetta var tilkynnt á vef ráðuneytisins var tilkynnt að búið væri að stofna sameignarfélag ríkisins og Samtaka ferðaþjónustunnar um Stjórnstöðina. Hvernig er því sameignarfélagi háttað? Getur ráðherra upplýst um aðkomu ríkisins og mótframlag Samtaka ferðaþjónustunnar að því sameignarfélagi? Það kemur ekki fram og mér vitanlega hefur þetta ekki enn þá verið upplýst.

Þetta fyrirbæri, Stjórnstöð ferðamála, er sérkennilegt og var sett á stofn með miklum lúðrablæstri. Í Stjórnstöðinni eiga sæti hvorki meira né minna en fjórir ráðherrar. Í svari við fyrirspurn hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur frá 4. apríl kom fram að þessi Stjórnstöð, núna í aðdraganda metsumars í ferðamennsku á Íslandi, fundaði síðast 2. mars. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nefndin, Stjórnstöðin, hafi séð ástæðu til þess að funda, eða stjórn hennar, síðan.

Loks held ég að ástæða sé til þess að velta því upp, í ljósi þess að það er eins og ekki sé laust við ráðleysi í þessum málaflokki í höndum hæstv. ráðherra, að um verkefni í vinnslu segir, þetta kemur fram í vegvísi Stjórnstöðvarinnar, að mikilvægt sé að fara í brýnar aðgerðir til verndar náttúru á fjölförnum ferðamannastöðum og markmiðið sé að grípa til skjótvirkra aðgerða þannig að þegar á árinu 2016 megi hefjast handa við úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum, áfangastöðum. Samhliða verði unnið að langtímaáætlun sem meðal annars felist í að meta þolmörk o.s.frv.

Getur ráðherrann upplýst okkur um það (Forseti hringir.) hvort þessar „akút“ aðgerðir séu í farvatninu eða hvort þeim sé mögulega lokið í ljósi þess að við sjáum hér metsumar?