145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

málefni Stjórnstöðvar ferðamála.

750. mál
[16:31]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Ég svara fyrst fyrstu spurningu hv. þingmanns um hverjar skýringarnar séu á því að framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála hafi horfið frá störfum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur Herði Þórhallssyni verið boðið annað starf. Hann tekur við starfi sem framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins Icepharma. Við munum og erum reyndar búin að auglýsa stöðuna, eins og alltaf stóð til. Hörður Þórhallsson var með samning í sex mánuði og hann greindi mér frá því í aðdraganda þess að staðan yrði auglýst að hann hefði ekki í hyggju að sækja um vegna þess að honum hefði verið boðið þetta starf.

Varðandi rekstrarfyrirkomulag Stjórnstöðvar ferðamála hefur, eins og hv. þingmaður vék að, verið stofnað rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála. Stjórnstöð ferðamála, sem hv. þingmaður kallaði áðan fyrirbæri, sem mér finnst alveg óþarfi, er samráðs- og samstarfsvettvangur stjórnvalda, ríkisins, sveitarfélaganna og Samtaka ferðaþjónustunnar. Þarna er um að ræða samstarfs- og samráðsvettvang innan greinar sem hefur óneitanlega fleiri snertifleti en aðrar atvinnugreinar hafa að jafnaði og þess vegna var að lokinni þeirri stefnumótunarvinnu sem lauk með gerð Vegvísis í ferðaþjónustu, sem var gefinn út í október á síðasta ári, ákveðið að stofna þennan vettvang til að samræma betur aðgerðir og fylgja eftir því sem við erum búin að koma okkur saman um á grundvelli vegvísisins að gera þurfi.

Þetta er kostað til helminga af Samtökum ferðaþjónustunnar og af ríkinu, 70 millj. kr. hvort. Í þessu rekstrarfélagi verður haldið utan um reksturinn á því, þetta er það sem maður gæti kallað, ef ég fæ að bregða fyrir mig enskri tungu, með leyfi forseta, „public-private partnership“, sem gefist hefur vel í mörgum og ýmsum málaflokkum, sérstaklega þar sem við þurfum að hafa náið samstarf milli þessara aðila við framkvæmdina.

Við lítum til þeirra landa sem við teljum gera þetta best. Bretar nota það mikið að setja á laggirnar þverfaglegt samstarf á vettvangi ríkisstjórnar, „whole of government“, svo ég bregði aftur fyrir mig enskunni, virðulegur forseti. Við tökum það aðeins lengra. Við tökum þetta á vettvangi ríkisins, sveitarfélaganna og greinarinnar sjálfrar og teljum, og sjáum það nú þegar, vera mikinn árangur af þessu starfi. Ég get að sjálfsögðu ekki látið hjá líða að mótmæla því að hér hafi verið aðgerðaleysi eða ráðaleysi, eða hvað sem þingmaðurinn kaus að kalla það, af okkar hálfu í málaflokknum. Þvert á móti hefur verið lyft grettistaki. Það hafa aldrei áður verið lagðir jafn miklir fjármunir til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum. Fjárveitingar á þessu kjörtímabili til málaflokksins hafa aukist um 1.000%. Ef maður ætlar að taka þetta miðað við fjölda ferðamanna má geta þess að jafnvel þótt við tökum fjölgunina með er hækkun framlaga miðað við hvern ferðamann um 500%.

Þingmaðurinn spurði um úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem brýnna aðgerða er þörf: Já, við erum komin af stað, vel á veg með ýmsar aðgerðir, bæði hvað þetta varðar sem og varðandi öryggismál sem við tókum sérstaklega fyrir. Stjórnstöðin hefur fundað fjórum sinnum. Það var fundur núna í apríl. Ég man ekki nákvæma dagsetningu en það er hægt að fletta henni upp. Á milli funda hefur framkvæmdastjórinn ásamt verktökum og samstarfsfólki og samráðshópum sem hann hefur kallað til unnið ötullega að því að setja af stað, vinna og ljúka. Öll verkefnin sem voru sett í forgang (Forseti hringir.) eru farin af stað. Mörgum þeirra er lokið og önnur komin í góðan farveg.