145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

rannsókn á mánaðartekjum háskólanema.

744. mál
[16:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Fyrst vil ég velta vöngum yfir tölfræðinni í úttekt Félagsvísindastofnunar en á bls. 39 segir, með leyfi forseta:

„Þegar tekjur námsmanna eru bornar saman við tekjur námsmanna í könnuninni frá 2004 kemur fram að meðaltekjur þeirra hafa hækkað um 60.000 kr. eða um 38% á síðustu tíu árum á meðan vísitalan hefur tvöfaldast á sama tíma. Það jafngildir því að tekjurnar séu um 100.000 kr. lægri á verðlagi 2014“ — eins og sést á mynd nr. 13 í skjalinu — „þegar laun stúdenta frá árið 2014 hafa verið reiknuð miðað við vísitölu.“

Þegar maður skoðar við hvaða vísitölu er miðað þá er miðað við launavísitölu. Ég hefði nú talið til að reyna að átta sig á verðgildi, þ.e. hvort tekjur hafi haldið verðgildi sínu eins og hv. þingmaður spyr um, þá er ekki eðlilegt að miða við launavísitöluna. Þá þarf að miða við verðvísitöluna. Ég skil eiginlega ekki af hverju þetta er sett upp með þessum hætti. Launavísitalan hefur hækkað úr 245 stigum í 494 stig, en verðlagsvísitalan á þessu tímabili hefur hækkað um 79%. Þarna er nú munur á. Þess vegna væri kannski áhugavert að skoða tölurnar hvað það varðar. En það er annað mál. Hið rétta er, sem hv. þingmaður bendir á þó að skoða megi þetta kannski sérstaklega, að við þurfum að bregðast við og ræða stöðu ungs fólks.

Hinir svokallaðir kynslóðareikningar sem liggja til grundvallar því þegar við berum saman stöðu kynslóðanna, ólíkra hópa, benda um margt til þess að staða ungs fólks núna sé lakari en þeirra sem á undan gengu. Það á reyndar við almennt í Evrópulöndum í dag, það er mjög víða. Ég ætla ekki að segja að það sé alls staðar en víða er sú staða uppi að efnahagsleg staða ungs fólks er verri núna en foreldra þeirra. Því miður.

Það sem við getum gert er fyrst og fremst að efla atvinnulíf sem veitir tækifæri til launa. En þá er spurningin þessi: Er menntun metin til launa? Það er staðreynd að á Íslandi er einn minnsti munur á launum þeirra annars vegar sem mennta sig og hins vegar þeirra sem mennta sig ekki innan OECD. Það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið í þeim málum. Annars vegar er sú stefna að sem minnstur munur eigi að vera á þeim sem lægst hafa launin og hafa ekki menntað sig og þeim sem hafa síðan menntað sig með áherslu á hækkun lægstu launa, sem þýðir þá að þar með er minna greitt fyrir menntunina. Hins vegar væri sú stefna uppi að greiða vel fyrir menntun og þar með mundi launabilið vaxa. Þetta er erfitt mál en þannig liggur það.

Hvað varðar beint svar við spurningu hv. þingmanns um hvað ég hyggist gera í þessum málum er að í fyrsta lagi viljum við skoða betur og nákvæmar tölfræðina í þessu því að áreiðanlegar upplýsingar um fjárhag og félagslegar aðstæður íslenskra háskólanema eru af skornum skammti.

Ég vil segja frá því að við höfum ákveðið að Ísland muni taka þátt í samevrópsku könnuninni Eurostudent í fyrsta skipti. Slík könnun hefur verið gerð sjö sinnum í Evrópu en við verðum með núna. Hún nær til fjárhags- og fjölskylduaðstæðna háskólanema. Hún var send út til háskólanema hér þann 3. maí 2016. Fyrstu niðurstöður ættu að vera tilbúnar haustið 2016. En samanburður við önnur Evrópulönd birtist síðan ekki fyrr en árið 2018. Það tekur því tíma að vinna úr þessu.

Hvað varðar frumvarp um lánasjóðinn er staðan sú að ég geri mér vonir um að það frumvarp nái að fara í gegnum ríkisstjórn og inn í þingið á allra næstu dögum. Það er tilbúið og hefur verið um nokkra hríð. Það hefur verið í kostnaðarmati og hefur auðvitað tekið sinn tíma. Þetta er flókið frumvarp og svo sem hægt að skilja að það taki tíma hjá fjármálaráðuneytinu að vinna það mat. En þar erum við að horfa til, eins og ég hef sagt áður opinberlega, námslánakerfa Norðurlandanna.

Þó vil ég nefna og að gefnu tilefni að við höfum á undanförnum árum smám saman verið að hækka framfærsluna hjá háskólanemum á Íslandi. Hv. þingmaður þekkir það vel að þar hefur hlutfallið sem við höfum verið að lána fyrir af heildarframfærslunni verið of lágt og við höfum verið að mjaka okkur upp á við að undanförnu. En við þurfum að komast hærra. Það er gamall vandi og nýr og við vonumst til þess að á næstunni getum við tekið þar stærri skref. Það er sú staða sem uppi er.

Það er kannski þetta tvennt sem ég vil taka sérstaklega fram varðandi það sem hv. þingmaður hefur spurt mig um hvað ég hyggist gera. Annars vegar vonast ég til að koma frumvarpinu um lánasjóðinn hingað inn og þá munum við geta rætt það og hvaða áhrif það frumvarp muni hafa á stöðu námsmanna. (Forseti hringir.) Það er ótímabært fyrir mig að fara að ræða það hér núna, bíðum þar til við erum komin með það til umræðu. Og hins vegar það sem ég nefndi varðandi það að afla fleiri gagna um málið þannig að við getum gert okkur betur grein fyrir þessari stöðu.