145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

rannsókn á mánaðartekjum háskólanema.

744. mál
[16:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar spurt er um aðgerðir þá er það svo að á árinu 2013–2014, því skólaári, var framfærslulánið miðað við 150.000 kr. en það er komið núna upp í um 172.000–173.000 kr. frá því að sú skýrsla er gerð. Það hefur því hækkað um og yfir 20.000 kr. á þessu kjörtímabili, sem er reyndar skoðað í sögulegu samhengi nokkuð mikil hækkun. Hún nær reyndar ekki alla leið, vissulega. En það breytir aðeins myndinni frá því að skýrslan er gerð. Þessi hækkun hefur átt sér stað, ég held að rétt sé að hafa það í huga, virðulegi forseti.

Ég ítreka að þegar frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur til umræðu munum við ræða þessi mál í því samhengi. Ég veit að við erum öll sammála um að við viljum gjarnan tryggja það sem best að kynslóðin sem á að taka við því verkefni að reka þetta samfélag sé sem best nestuð og sem best menntuð til að takast á við það verkefni.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en brugðist ögn við þeim ummælum sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir lét falla varðandi kjaramál á Íslandi. Það er þannig að allir þeir sem hafa fylgst með þeim málum vita að þar eru samanburðarfræðin nokkuð ofarlega á blaði, þ.e. menn bera sig saman á milli launaflokka, á milli starfsgreina, innbyrðis í tengdum starfsgreinum o.s.frv. Þetta er sú lexía sem allir kunna hvað varðar kjaramál á Íslandi. Ef einn hækkar umfram eitthvað þá fylgja aðrir með, viðmiðunarhópar svokallaðir.

Þá er sá vandi uppi og sú staðreynd er þekkt að minnstur munur er á milli launa þeirra sem mennta sig og þeirra sem mennta sig ekki, eða einna minnstur, innan OECD og hér á Íslandi, ef ekki minnstur. (Gripið fram í.) Það þýðir að um leið og við leysum það og hækkum laun menntamanna til að greiða fyrir með sanngjörnum hætti fyrir menntun þeirra þá myndast munur. (Forseti hringir.) Það myndast munur. Ég hefði haldið, virðulegi forseti, að þetta sé óumflýjanlegt og ekki sé hægt að vera ósammála þeirri niðurstöðu. (Forseti hringir.) En það er auðvitað bara umhugsunarefni ef menn geta verið ósammála þessu. (VBj: … ósammála þessu.)