145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Grænlandssjóður.

754. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að vekja athygli á þessu máli og á því frumvarpi sem er svo mikilvægt að fari hér í gegn til að leysa úr læðingi þá fjármuni sem þarna eru. Vissulega er ekki um að ræða háar eða miklar fjárhæðir en þær eru, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, mikilvægar og geta skipt töluvert miklu máli í þeim verkefnum sem menn sjá fyrir sér að hægt verði að ráðast í til að efla og styrkja sambandið á milli Íslands og Grænlands.

Auðvitað er það allnokkuð sérstakt að sjá ávöxtun á þessum sjóði og umhugsunarefni hvernig hann hefur farið. En það er, ef svo má að orði komast, eitthvað sem er þá vonandi í fortíðinni og ekki um það að fást í sjálfu sér. Það þarf að tryggja að eðlileg ávöxtun sé á þessum sjóði, horft fram á við. Og síðan að eðlilegur hluti af því, arðurinn, sé tekinn, eða vextirnir, til að úthluta. Vel má vera að menn vilji kannski ekki úthluta öllum vöxtunum og reyna að byggja sjóðinn meira upp þannig að hann verði öflugri þegar fram líða stundir. Það er þá eitthvað sem hv. þingmenn geta tekið afstöðu til þegar að því kemur.

En ég vil enn og aftur bæta því við að ég sé fyrir mér mikil sóknarfæri fyrir Ísland í samskiptunum við Grænlendinga, og reyndar er allt vestnorræna samstarfið gríðarlega mikilvægt, bæði á milli landanna innan vébanda Vestnorræna ráðsins og einnig skiptir máli, þegar við erum að starfa til dæmis saman á vettvangi Norðurlandaráðs, að við veitum þessum löndum atbeina og stöndum með þeim í ýmsum þeim málum sem þau reka innan okkar sameiginlega vettvangs, Norðurlandaráðs. Ýmislegt slíkt, sem snýr að utanríkisstefnu okkar, tel ég að hægt sé að nýta. (Forseti hringir.) Þó að það séu ekki stór mál eru þau mikilvæg. Ég er þess vegna mjög sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað þetta varðar.