145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að heyra hér í einstökum þingmönnum Framsóknarflokksins, ekki síst hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur sem telur að það hafi verið vanhugsað að boða til kosninga í haust. Ég velti fyrir mér hvort hún hafi komið þeim ábendingum til hæstv. forsætisráðherra að svo sé því að það voru einmitt hann og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem kynntu þessi áform fyrir þjóðinni að eigin frumkvæði á frægum fundi sem haldinn var í stiganum í skála þinghússins í hvirfilbylnum miðjum, sem lauk með því að hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði af sér.

Þegar við nálgumst kosningar sem allir eru sammála um að séu á næsta leiti nema nokkrar raddir úti í bæ og einn og einn þingmaður Framsóknarflokksins, er mikilvægt að við yddum okkar pólitísku sýn og skerpum á því hver eru meginverkefnin fram undan. Fram kemur í nýjum þjóðarpúlsi Gallup að meiri hluti íslenskra heimila safnar skuldum eða nær endum saman með naumindum og fátækar fjölskyldur eru margar ef marka má þjóðarpúlsinn. Við vitum líka að samkvæmt nýrri niðurstöðu Unicef eru 6.100 íslensk börn sem líða skort, þar af 1.600 íslensk börn sem líða verulegan skort. Það dugar ekki að standa hér og berja sér á brjóst yfir því að almenningur finni fyrir áhrifum efnahagsbatans þegar enn er svo að fjölmargir öryrkjar búa við sára fátækt sem er samfélaginu til háborinnar skammar.

Rétt eins og er um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hlýtur það að vera fyrsta markmið og fyrsta verkefni ríks samfélags með sjálfsvirðingu að gera um það áætlun að útrýma fátækt.


Efnisorð er vísa í ræðuna