145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota tækifærið til þess að ræða stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaðnum. Ég hafði beðið um sérstaka umræðu hér í þingsal en hún var tekin út þar sem hún þótti of lík sérstakri umræðu hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur. Ég tel þó svo ekki vera.

Komið hefur skýrt í ljós að ríkisstjórnin hefur ákveðna séreignarstefnu í huga. Það er gott og vel, en hins vegar gengur það ekki upp að mínu mati þegar maður horfir á heildarmyndina. Ungt fólk, sem við viljum helst að séu námsmenn og mennti sig, og það er gaman að fá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hérna inn, getur haft 2,4 millj. kr. í tekjur á ári án þess að lánin skerðist. Þá reiknum við með 930 þús. kr. frítekjumarki. Til þess að hafa efni á því að leggja út fyrir íbúð sem kostar 25 millj. kr. þarf að leggja fram 3,7 millj. kr. Einstaklingur sem getur bara lagt fyrir 10 þús. kr. á mánuði, sem er raunhæft þegar maður er á svo lágum launum eins og stúdentar eru, þá tekur það mann 26 ár að safna sér fyrir útborgun. Eins og hvernig staðan er núna þegar leigumarkaðurinn er kominn upp úr öllu valdi sjáum við hvernig stefnan er, hvernig námslán eru reiknuð út. Þau eru meðal annars miðuð við frítekjumark. Þarf að koma eitthvað sérstakt í staðinn þegar um er að ræða ungt fólk og húsnæði, sér í lagi þar sem námslánin sem reiknuð eru út fyrir húsnæði eru bundin við einingafjölda og við stúdentagarðana eingöngu. Þau endurspegla því ekki ástandið á almenna markaðnum.

Ég tel því ríkisstjórnina vera að leggja stein í götu ungs fólks, sérstaklega þegar litið er til þess að ungt fólk hefur ekki fengið neina leiðréttingu á sínum málum. (Forseti hringir.) Það er því kominn tími til þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) fari að sýna á spilin þegar kemur að því af því að ungt fólk þarf líka að fá að lifa af eins og hver annar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna