145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu sem ljóst má vera að er mikilvæg. Óumdeilt er mikilvægi fjölmiðla í samfélaginu, hvort sem horft er til þess hlutverks þeirra að veita ríkisvaldinu aðhald, eða hinu opinbera valdi aðhald, eða fræðsluhlutverks þeirra, afþreyingarhlutverks o.s.frv. Allt eru þetta mikilvægir þættir í starfsemi fjölmiðla og skipta máli.

Hvað varðar endurskoðun á lögum um fjölmiðla er ekki langt síðan hér voru samþykkt lög um fjölmiðla. En þróunin og breytingar á fjölmiðlamarkaði eru svo hraðar, m.a. vegna tæknibreytinga, að það kann að vera rétt athugað hjá hv. þingmanni að skoða þurfi það oftar og reglulegar, oftar en gert hefur verið.

Ég vil ekki víkjast undan því og tel alveg ástæða til að taka mark á þeim ábendingum og fleiri sem hafa komið fram um að skoða þurfi einstök ákvæði í núgildandi lögum og jafnvel eftir atvikum ný ákvæði eða nýja efnisþætti sem hafa komið upp í fjölmiðlaumræðunni, þegar kemur upp umræða um stöðu fjölmiðlanna, rekstrarstöðu þeirra o.s.frv., áhrif erlendra efnisveitna á fjölmiðlamarkaði og þess háttar. Allt held ég að þetta hljóti að vera, eins og hv. þingmaður bendir á, til umræðu.

Hvað varðar ritstjórnarlegt sjálfstæði og skoðanafrelsi fjölmiðlamanna eru ég og hv. þingmaður sammála um að mjög mikilvægt er að það sé virt. Ég hef reyndar sagt í ræðustól áður að að sjálfsögðu tel ég það hluta af tjáningarfrelsinu að menn geti stofnað fjölmiðil til þess að berjast fyrir skoðunum sínum, persónulegum skoðunum eða einhverjum öðrum. Það er hluti af tjáningarfrelsinu. Þá skiptir öllu máli að eignarhaldið á slíkum fjölmiðlum sé alveg skýrt þannig að almenningur viti úr hvaða átt fjölmiðillinn talar.

Hvað varðar annars almennt um fjölmiðlamarkaðinn vil ég segja að rekstrarstaða fjölmiðla er áhyggjuefni. Þó að hv. þingmaður hafi kannski ekki gert það mjög að umtalsefni veit ég að það er undirliggjandi í því sem hv. þingmaður ræddi.

Breytingar eru að verða t.d. á auglýsingamarkaði þar sem auglýsingar eru að færast yfir til efnisveitna eins og Google og Facebook, inn á erlenda fjölmiðla, svo dæmi séu tekin. Innkoma efnisveitna eins og Netflix, fyrirsjáanleg innkoma fleiri erlendra aðila sem bjóða upp á afþreyingarefni þrengir að íslenskri fjölmiðlastarfsemi, sérstaklega á ljósvakasviðinu.

Ég held að ekki verði undan því komist að ræða það og hef ég kallað eftir þeirri umræðu áður og bendi á að eitt af því sem við hljótum að þurfa að taka afstöðu til hér og verður meira og meira knýjandi er sú staðreynd að Ríkisútvarpið á Íslandi er á auglýsingamarkaði og er þar umsvifamikið.

Ég tel að það gangi ekki upp til lengdar að hafa það fyrirkomulag. Við verðum að horfast í augu við þá stöðu og grípa til aðgerða til að breyta því. Það mun kannski taka tíma og gerist ekki á einu missiri eða tveimur, en ég held að við verðum að fara að undirbúa okkur undir slíka aðgerð vegna þess að rekstrarstaða fjölmiðlanna mun fara versnandi. Ég held að ekkert muni breyta því, öll þróun er í þá átt.

Þá hljótum við að horfa til fjölmiðlaumhverfis annars staðar á Norðurlöndum og víðar þar sem ríkisrekni fjölmiðillinn er ekki á auglýsingamarkaði. Það hlýtur að vekja athygli hversu stóran hluta af áhorfi á ljósvakamiðlana Ríkisútvarpið tekur, hversu umsvifamikið það er þegar við horfum til þessara þátta. Það þarf að hafa í huga.

Virðulegi forseti. Hvað varðar samþjöppun á eignarhaldi man ég vel þegar hér voru fyrir nokkrum árum síðan umræður um fjölmiðlalög sem þá voru lögð fram, sem m.a. sneru að samþjöppuninni, sneru að eignarhaldinu, og þeim miklu deilum sem urðu í íslensku samfélagi vegna þeirrar tillögugerðar. Sitt sýndist hverjum og höfðu ábyggilega flestir eitthvað til síns máls, en þar lágu undir áhyggjur af samþjöppun eignarhalds og áhrif svokallaðra auðmanna, auðhringja á fjölmiðlana.

Þær áhyggjur höfðu menn þá. Það er ekkert óeðlilegt að menn hafi áfram áhyggjur af samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Það sem skiptir máli er að fylgjast vel með eignarhaldinu, að það sé gagnsætt, að það sé birt reglulega. Til þess þarf fjölmiðlanefndin að vera í færum með að sinna því eftirlitshlutverki sínu. Það skiptir miklu máli.

Það er alveg sjálfsagt mál og sennilega tímabært að skoða stöðu fjölmiðlanefndarinnar. Ég vil benda á að menn hafa rætt hvernig fjölmiðlanefndin starfar núna og hvort (Forseti hringir.) einhverjum af þeim verkefnum sem hún fæst við, til að mynda sem snúa að samkeppnismarkaði, væri hægt að sinna í gegnum t.d. samkeppniseftirlit, svo dæmi sé tekið.