145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er afar nauðsynleg. Það sýnir okkur meðal annars að áhrif Panama-skjalanna, sem eru óumdeild, koma líka fram á mjög góðum tíma. Sjálfstæðum blaðamönnum tókst það sem rannsóknarskýrslu Alþingis tókst ekki að fullu að leysa, þ.e. að vekja okkur, almenning í landinu, til vitundar um skaðsemi flókinna fyrirtækjasamstæða, sem eru með félög á aflandssvæðum.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að styrkja yrði stöðu fjölmiðla gagnvart misnotkun eigenda sinna og undir það tók síðasta ríkisstjórn og setti afar mikilvæg lög um eignarhald fjölmiðla. Eitt af því mikilvæga í þeim lögum er að upplýsingar um eignarhald fjölmiðlafyrirtækja eiga ávallt að vera almenningi aðgengilegar. Það er lífsnauðsynlegt í litlu samfélagi eins og okkar að eignarhaldið sé uppi á borðum og komið sé í veg fyrir samþjöppun þess og ekki síður fyrir almenning að geta tekið afstöðu til bæði ritstjórnarstefna og annars efnis miðlanna, t.d. með tilliti til hagsmuna. Utan um þetta allt á fjölmiðlanefnd að halda en við höfum því miður séð að stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækin virðast ekki virða ákvæði þeirra laga að öllu leyti.

Mig langar líka að vekja athygli hér á svæðisbundnum fjölmiðlum. Ég lagði fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að styrkja landsbyggðarfjölmiðlana, enda afar mikilvægt að þeir endurspegli fjölbreytileika í íslensku samfélagi, og til að tryggja fjölbreytta fjölmiðlun og ekki síður aðhald á svæðisbundnar stofnanir. Vissulega spilar Ríkisútvarpið þar stórt hlutverk sem er fjölmiðill allra landsmanna. En það skiptir ekki síður máli að tryggja stuðning við svæðisbundna fjölmiðlun af hálfu Ríkisútvarpsins og að styðja með öðrum ráðum við staðbundna héraðsfjölmiðla sem hafa enda í gegnum tíðina verið vettvangur skoðanaskipta. Í rannsókn sagnfræðingsins Hrafnkels Lárussonar um svæðisbundna fjölmiðla á Austurlandi kemur fram mikilvægi lýðræðisumræðunnar og þegar héraðsmiðlarnir fóru að veikjast á síðasta áratug aldarinnar sem leið hafi það strax haft áhrif á staðbundna umræðu um ýmis mál sem snerta líf íbúa hinna smærri byggða.

Enginn fjölmiðill hefur þó lagalega ábyrgð og skyldur á borð við Ríkisútvarpið að fjalla um svæðisbundin mál og önnur mál og til að miðla fjölbreytileika íslensks samfélags. Því verður að tryggja rekstrarlegan grundvöll Ríkisútvarpsins með öllum ráðum og ég tel að um það ríki almenn samfélagsleg sátt.