145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:20]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að hefja umræðu um fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í dag. Fjölmiðlalæsi getur haft úrslitaþýðingu þegar maður myndar sér skoðun og tekur upplýsta afstöðu til mála. Þar af leiðandi er heilbrigt og gegnsætt fjölmiðlaumhverfi grundvöllur lýðræðislegrar umræðu og þjóðskipulags. Innbyrðis tengsl okkar eru hluti af jöfnunni sem við glímum við í stóra samhenginu. Þess vegna er enn mikilvægara en ella að eignarhald fjölmiðla hér sé uppi á borðum.

Fjölmiðlalögin frá 2011 voru sannarlega skref í rétta átt og ég tel að punktarnir sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom með áðan um ábendingar ÖSE séu skoðunarverðir varðandi samþjöppun á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við verðum að fara vel í saumana á því hvort ástæða sé til að skoða löggjöf til að mæta þessum ábendingum ÖSE.

Það er á móti áhyggjuefni sömuleiðis eins og hæstv. menntamálaráðherra benti á hversu lítill auglýsingamarkaðurinn er á Íslandi og hvernig við ætlum að flétta þessu öllu saman.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson lagði fram afar yfirgripsmikla fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á 144. löggjafarþingi um störf og hlutverk fjölmiðlanefndar og endurskoðun laga um fjölmiðla. Ég hef of skamman tíma til að fara nákvæmlega í fyrirspurnina og svör við henni en ég hvet þá sem áhuga hafa á að kynna sér það vegna þess að þar kemur margt merkilegt fram sem tengist þessu. En í svari við 2. spurningu kemur fram að fjölmiðlanefnd hafi á tímabilinu 2011–2012 kallað eftir upplýsingum um eignarhald og skráningu fjölmiðla í 64 málum af þeim 219 sem hún hafði til umfjöllunar. Önnur mál á borði nefndarinnar voru meðal annars upplýsingar um ársskýrslugerð og leyfisumsóknir. Í svarinu kemur einnig fram að eignarhald allra fjölmiðla sé birt á heimasíðu (Forseti hringir.) fjölmiðlanefndar enda eitt af markmiðum fjölmiðlalaga að stuðla að rétti almennings til upplýsinga um eignarhald á fjölmiðlum.

Að lokum langar mig að kalla eftir skýrslu fjölmiðlanefndar. (Forseti hringir.) Á síðu hennar er síðasta skýrsla frá 2011 sem útvarpsréttarnefnd skilaði þannig að mig langar að vita hvar skýrslan er og hvort hún sé á leiðinni.