145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að sú stefna sem hið opinbera þarf að hafa gagnvart fjölmiðlun í landinu eigi að leggja mesta áherslu á öflugt almannaútvarp, á gagnsætt eignarhald, á sjálfstæða ritstjórnarstefnu en jafnframt þarf líka að skapa rekstrarumhverfi fyrir fjölmiðlun í landinu sem stuðlar að því að hún verði sem fjölbreyttust. Þetta er það sem skiptir meginmáli varðandi fjölmiðlun á Íslandi í dag. Þróun og tækni hefur leitt til þess að menn sjá hlutina e.t.v. öðrum augum en áður. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að það sé alveg hárrétt, sem hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan, að menn ættu í framtíðinni að reyna að leita leiða til að draga Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði. Ég tel að þetta sé spurning um lýðræði. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum fjölbreytta fjölmiðlun, Ríkisútvarpið hefur sýnt það, sérstaklega í gegnum hrunið og á árunum eftir það, að það stendur undir væntingum en við þurfum meira aðhald gagnvart kerfinu, gagnvart okkur sjálfum en einungis felst í því.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, eins og hér hefur komið fram í umræðunni — þar sem auglýsingamarkaðurinn er kannski að færast af þessu hefðbundna sviði yfir á annars konar nýrri efnisveitur og sífellt verða minni slægjur á þessum hefðbundna markaði — að það komi að því að það verði mjög erfitt fyrir aðra fjölmiðla að starfa á þessum markaði. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli að ríkið og hið opinbera tryggi mjög traustan grunn almannaútvarpsins en samhliða verði stefnt að því að draga það út af auglýsingamarkaði vegna þess að við þurfum líka á hinum fjölmiðlunum að halda, Eyjunni, Kjarnanum, Fréttablaðinu og hvað það allt saman heitir, Stundinni, til þess að halda uppi því aðhaldi sem þetta samfélag þarf á að halda. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)