145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hún fellur mjög vel inn í þá pólitísku og samfélagslegu deiglu sem við erum í núna, þegar við höfum verið að ræða efnahagshrunið og síðan hrun á pólitískum og samfélagslegum trúverðugleika. Hvað varðar þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, að því er varðar það viðfangsefni að endurheimta traust og trúverðugleika, þá hlýtur umræðan um fjölmiðla að vera í öndvegi. Umræðan er bæði tímabær og nauðsynleg í því samhengi.

Þar er auðvitað fyrst að telja öflugt almannaútvarp sem er Ríkisútvarpið, sem nýtur sjálfstæðis, ritstjórnarlegs sjálfstæðis, og á ekki undir neinum kringumstæðum að þurfa að þola pólitískar ákúrur eða hótanir eins og ítrekað hefur gerst á þessu kjörtímabili. Það sýnir alvarleika hinnar pólitísku stöðu sem við höfum verið að horfast í augu við á þessu kjörtímabili að svo ótrúlega mörgu leyti að með einhverju móti skuli hafa verið litið á það sem eðlilegan part af pólitískri orðræðu og umræðu að fólk í lykilstöðum í samfélaginu — formaður fjárlaganefndar, aðrir sterkir þingmenn með völd og ráðherrar — skuli setja ofan í við ríkisfjölmiðilinn og hóta jafnvel með hýrudrætti. Það er eiginlega alveg með ólíkindum og það er á slíkum tímapunktum sem maður efast um að íslenskt samfélag sé þjóð meðal þjóða, að við (Forseti hringir.) áttum okkur á því hversu mikilvægur þessi kjarni er.

Kjarni málsins er sterkt, öflugt ríkisútvarp og möguleikinn á því að styðja við öfluga og sjálfstæða rannsóknarblaðamenn, hvar sem þá er að finna.