145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Ég sé þetta svona: Það skiptir máli að það sé öflugt almannaútvarp í landinu. Fyrir því eru veigamikil rök og ég hef margsinnis gert grein fyrir þeim úr þessum ræðustól. En það skiptir um leið máli að sú stofnun hafi skýrt hlutverk, skýrt markmið og starfi samkvæmt því. Um það er fjallað í lögum um Ríkisútvarpið og á því er síðan hnykkt, þeim verkefnum stofnunarinnar, í nýgerðum þjónustusamningi.

Um leið og ég segi þetta vil ég ítreka að það sem skiptir máli, og mestu þegar upp er staðið, er fjölmiðlamarkaðurinn í heild, aðgengi okkar að upplýsingum, afþreyingu, skemmtun, fræðslu. Þá tel ég varhugavert að horfa aðeins á stöðu Ríkisútvarpsins einangrað og að horfa verði á allan fjölmiðlamarkaðinn sem heild. Ég tel að hægt sé að hafa bæði öflugt almannaútvarp, ríkissjónvarp, líkt og gert er annars staðar á Norðurlöndunum, og um leið gera það sem gera þarf til að skapa góð rekstrarskilyrði fyrir aðra fjölmiðla. Það getur ekki gengið upp eða orðið niðurstaðan að við sitjum í þeirri stöðu að hafa öflugt ríkisútvarp og síðan mjög veika aðra fjölmiðla, að íslenska fjölmiðlaflóran verði þannig að hún verði með hlutfallslega mjög stórt ríkisútvarp og síðan fáa og jafnvel veika aðra fjölmiðla.

Um þetta hefur verið rætt m.a. annars staðar á Norðurlöndunum og sú umræða þarf að fara fram hér. Ég hef áhyggjur af rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla á fjölmiðlamarkaði. Ég hef áhyggjur af stöðu þeirra. Þess vegna tel ég að nást verði einhvers konar niðurstaða og lausn í því á næstu missirum, og við höfum ekki langan tíma, til þess að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og auki þar með svigrúm annarra fjölmiðla til að starfa.