145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:06]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er að mínu mati sannarlega eitt stærsta mál sem liggur fyrir þessu þingi. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel nefndin virðist, miðað við framsögu hv. þingmanns, hafa fjallað um málið og lagt sig í líma við að bæta úr því sem kann að þurfa að bæta úr. Ég hjó eftir, og þetta er alls ekki efnislegt, orðanotkun varðandi hið ágæta dómstólaráð sem ég þekki af reynslu frá fyrri tíð. Ég sé að hér liggur fyrir breytingartillaga um heiti þeirrar stofnunar og get ég í sjálfu sér tekið undir þá breytingartillögu, þ.e. að dómstólasýslan verði dómsýslan. Dómstólasýslan finnst mér alveg afleitt heiti og af því að hv. þingmaður kallaði eftir einhverjum viðbrögðum þingmanna vildi ég koma því á framfæri að mér finnst dómsýslan skömminni skárri, en ég hins vegar velti því fyrir mér af hverju apparatið sem slíkt mætti ekki áfram heita dómstólaráð, sem mér finnst ágætisheiti yfir þá stofnun eða það ráð eins og því er ætlað hlutverk miðað við frumvarpið.

Ég vildi spyrja hv. þingmann. Í frumvarpinu er fjallað um hæfi dómara og annað. Hefur í vinnu hv. nefndar eitthvað verið fjallað um hæfi lögmanna til flutnings mála fyrir hinum nýja Landsrétti? Mér sýnist frumvarpið ekki taka neitt á því en ég tel að farið hefði vel á því að fjalla um það og gera það afdráttarlaust að engu sérstöku skilyrði, þ.e. að héraðsdómslögmenn mundu áfram flytja mál fyrir Landsrétti.