145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þetta andsvar sem veitir mér tækifæri til að þakka nefndinni, sem ég gleymdi í ágætri framsögu minni, fyrir mjög gott samstarf og yfirlegu yfir þessi stóru mál og miklu breytingar.

Hugmyndin um dómstólaráð, þ.e. að hafa nafnið óbreytt, var svo sem ekki rædd sérstaklega. Við ákváðum að klára ekki alveg umræðuna um það atriði. Það er komin fram breytingartillaga og við ætlum okkur aðeins að hugsa þetta og reyna að kalla fram afstöðu helstu íslenskusérfræðinganna í salnum, sem eru nokkrir, varðandi hvaða heiti sé best. En þetta er óneitanlega ekkert sérstaklega þjált, dómstólasýsla.

Varðandi lögmennina var ekki sérstök umræða eða umfjöllun í nefndinni varðandi skilyrði lögmanna til að flytja mál fyrir millidómstiginu. Ég minnist þess ekki að Lögmannafélagið hafi gert athugasemdir við þau ákvæði frumvarpsins sem eiga við þar. Við höfum auðvitað enn þá tíma ef það eru einhverjar athugasemdir við það, en ég geri ráð fyrir því að menn séu sáttir fyrst það komu ekki harðorð mótmæli frá Lögmannafélaginu gagnvart því uppleggi sem hér er, enda var þetta unnið þannig að þess var gætt að hafa samráð, m.a. við Lögmannafélagið. Það skýrir kannski af hverju athugasemdir við málin, sem eru vissulega stór og fela í sér miklar breytingar, berast ekki í stríðum straumum til þingsins, vegna þess að þeir aðilar sem starfa í dómskerfinu og hafa á því skoðun höfðu margir komið sjónarmiðum sínum á framfæri á fyrri stigum. En að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem út af stendur. Það má geta þess (Forseti hringir.) að fyrrverandi hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, kom með mjög athygliverðar vangaveltur og tillögur um að breyta reglum um samningu dómsatkvæða í Hæstarétti þannig að hver dómari semji sínar eigin forsendur undir eigin nafni.