145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í þessari umræðu um dómstóla. Eins og hv. formaður nefndarinnar fór ágætlega yfir hér í upphafi náðist samkomulag um að skila þessu máli með einu nefndaráliti, sem ég tel afar mikilvægt. Þetta er mál sem snertir innviði samfélagsins og það skiptir miklu máli að við sendum þau skilaboð út í samfélagið að um það ríki nokkuð góð sátt.

Ég vil eins og formaðurinn þakka fyrir samstarfið í nefndinni um þetta mál. Við gáfum okkur góðan tíma og fengum, held ég, alla þá á fund til okkar sem óskað var eftir. Ég öðlaðist töluvert mikla innsýn í mál dómsýslunnar sem ég hafði ekki áður. Hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málin sem nefndin var að takast á við. Við komumst að nokkuð sambærilegri niðurstöðu þegar betur var að gáð og þegar við vorum farin að lesa saman ágreiningsefni voru þau kannski ekki stærri en svo að við náðum saman um þau.

Stóra málið í þessu er sönnunarfærsluhlutinn og stofnun þessa nýja dómstigs, að gera það kleift að færa sönnur á mál aftur. Ég held að það sé mikilvæg réttarbót og fannst allir þeir sem komu fyrir nefndina vera á þeirri skoðun. Fólk hefur auðvitað áhyggjur af því að allt of mörg mál fari á öll þrjú dómstigin. En nú er verið að reyna að girða fyrir það með ákveðnum aðgerðum, búa til svokallaða hjáleið fyrir þau mál sem kannski geta farið beint frá fyrsta dómstigi upp á það þriðja og reyna að búa þannig um hnútana að sem flest mál endi á öðru dómstigi.

Eins og hér hefur verið komið inn á, og í sjálfu sér ekkert nýtt sem ég get lagt í púkkið, þá hefur þessi eftirlitsþáttur verið gagnrýndur töluvert. Maður heyrir það líka úti í samfélaginu að fólk telur að traustið á dómstólunum sé ekki nægjanlegt og að tryggja verði eftirlit mun betur en gert hefur verið. Eins og umboðsmaður kom svo ágætlega inn á þá hefur kannski ríkt réttaróvissa um opinbera eftirlitið með stjórnsýslu dómstólanna. Hann taldi sig ekki hafa þær heimildir sem til þyrfti til þess að hann gæti sinnt því. Þess vegna er því beint til forsætisnefndar, sem er með lög um umboðsmann til umfjöllunar, að þetta sé haft í huga og spurt hvort nefndin telur ástæðu til að breyta lögum í þá veru sem við í allsherjar- og menntamálanefnd teljum ástæðu til.

Eins og hér var rakið gerðum við í minni hlutanum fyrirvara við 12. gr. Hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fór ágætlega yfir þessa spurningu um traustið; fyrirvari okkar byggist á því að trúverðugleiki og traust ríki um skipan dómara sem gegna mjög mikilvægu hlutverki í lífi margra, að minnsta kosti á einhverjum tímapunkti. Þess vegna er mikilvægt að vandað sé til verka og að samfélagsleg sátt ríki um það hvernig að þessu sé staðið. Ég held því að það sé ágætt að gera þetta með þessum hætti.

Varðandi þær athugasemdir sem bárust um málið, m.a. um að héraðsdómur gæti veikst vegna þess að mikið rennsli yrði þaðan og yfir í Landsrétt, þá kom fram að sömu kröfur væru gerðar til dómara í bæði í Hæstarétti og Landsrétti, það var eitt af því sem var gert og við lögðum til breytingu á því, þ.e. að einstaklingur þyrfti ekki að hafa verið prófessor í ákveðinn tíma til að fá skipun í stöðu hæstaréttardómara eða landsréttardómara sökum breyttra tíma og sú breyting er hér til umfjöllunar. En fyrst og fremst var nú kannski gagnrýnin á að héraðsdómstóllinn mundi veikjast og einhverjir voru með þær hugmyndir að þetta yrði gert í áföngum þannig að einhver mannskapur mundi þjálfast upp sem hægt og sígandi færi þá yfir.

Svo var það það sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir, hvaða störfum dómarar mega gegna og kjaramál þeirra komu svolítið inn í; auðvitað hafa þau batnað. Þau voru löguð til til þess meðal annars, eða sú var hugmyndin, að þeir þyrftu ekki að vera í öðrum störfum samtímis. Þetta orkar tvímælis. Það getur líka verið afar gott að hafa aðila innan úr kerfinu sem kann á málin og svo getur það verið óþægilegt þegar fara á að túlka þau lög sem maður sat sjálfur við borðið við að semja. Aðrir telja það kost og einhverjir töldu það ókost, en ég held að sú niðurstaða sem hér hefur náðst sé ágæt.

Varðandi gæðamálin, þ.e. málsmeðferðina varðandi borgarana, vandamálin gagnvart Hæstarétti; hann hefur sent málin til baka og hefur ekki sjálfur metið þessa sönnunarfærslu. Fram kom að það þyngi allt kerfið, virki ótrúverðugt og þetta sé ein leiðin til þess að reyna að draga úr því. Kannski hafa þau mál sem Hæstiréttur hefur verið með í höndunum verið allt of mörg. Nú er gert ráð fyrir því að þau gætu flest orðið rúmlega 80 eða þar um bil og menn fá þá rýmri tíma til að fara ofan í hvert og eitt mál sem þeir eru með.

Varðandi kjaramálin, aðbúnað og aðstöðu og annað slíkt, þá gerði ég athugasemdir við fjármögnunina. Enn hafa ekki komið svör við því frá ráðuneytinu. Ég tel þetta vanfjármagnað eins og þetta er lagt upp í frumvarpinu. Ekki bara í stóra samhenginu heldur líka á rekstrargrunni hvers árs eins og hér er lagt upp með. Ég held að það sé of lítið. Svo verðum við að horfa til þess að dómskerfið er ekki nægjanlega vel fjármagnað í dag. Við sjáum aðstöðuna í héraðsdómi sem er ekki ásættanleg. Þegar við erum að fjalla um að búa hér til dýrt millidómstig, ég held að það neiti því enginn að þetta er dýrt millidómstig, á sama tíma og kerfið er vanfjármagnað er ekkert óeðlilegt að fólk spyrji sig: Er hægt að gera hlutina öðruvísi og betur? Getum við nýtt okkur aðrar leiðir, ódýrari leiðir, sáttameðferð og ýmislegt fleira sem kannski hefur ekki verið skoðað nægjanlega. Vitnað var í grein sem við fengum í hendurnar þar sem nokkrir dómarar setja fram þá skoðun sína að þetta þurfi að kanna betur; Stefán Már Stefánsson kom með það. Þó að hann sé ekki á móti frumvarpinu sem slíku þá nefnir hann þetta. Telur að fyrir hendi séu aðrar ódýrari leiðir. Hann hefur efasemdir um að við höfum 15 nýja og hæfa dómara sem til þarf og fleirum fannst það reyndar líka og höfðu efasemdir um að þetta gæti gengið öðruvísi en að einhver dómstóllinn veiktist og þá var það héraðsdómur.

Töluverð umræða var um endurupptökunefnd þessu samhliða og réttarfarsnefnd kom aðeins inn á að hún teldi að breyta þyrfti nefndinni, m.a. þannig að hún væri ígildi dómstóls og vísaði svo til þess líka, eins og varðandi þetta frumvarp, að láta það taka gildi í tveimur atrennum. Talað var um að skipun dómara yrði með þeim hætti sem þingið ákvað 2011 á faglegum grunni. Ég tek undir það. Ég held að það sé afar gott. Það var kannski mæst á miðri leið að einhverju leyti hvað það varðaði. Ég veit ekki hvort gerð hafi verið úttekt á því hvort leiðin hefur ekki skilað tilætluðum árangri, hvort hún hafi ekki gefist vel og hversu margir dómarar hafi verið skipaðir samkvæmt þessari leið sem farin var hér áður o.s.frv.

Fólk var heilt yfir nokkuð sátt við að þetta frumvarp næði fram að ganga. Í svona stórum hópi, þegar um svo viðamikið mál er að ræða, eru auðvitað ekki allir sáttir og fólk hefur mismunandi nálgun í þessu samhengi. Ákæruvaldið taldi að það hefði fengið sitt fram, þ.e. að sjónarmið þess hefðu komið vel fram við undirbúning frumvarpsins en hafði samt sem áður áhyggjur af því og minnti á að breytingarnar, varðandi mönnun og umgjörð og allt það þegar sönnunarfærslan — þetta er bæði í hljóð og mynd, þetta tekur gríðarlega langan tíma eða getur gert það, og þau eru að lenda í ákveðnum vandræðum með upptökur í dag. Að þessu þarf að huga þegar þetta verður tekið í framkvæmd. Þar kom líka fram ábending varðandi húsnæði héraðsdóms þar sem fólk er berskjaldað fyrir fjölmiðlum og fólki. Það er eitt af því sem ég hef efasemdir um; við erum að fara hér inn í þetta vanfjármagnaða kerfi sem þarf miklu meira en hér er kannski gert ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Hér var dregið upp það sem við helst ræddum í þessu frumvarpi. Eins og ég segi. Fyrst og síðast snýst þetta um þá meginreglu að hægt sé að framkvæma þessa sönnunarfærslu í annað sinn og uppleggið að þetta komi sem sjaldnast til allra dómstiga. Ég tek undir það að þetta dómstólaráð verði lagt niður og þessi dómstólasýsla verði dómsýsla. Mér finnst það miklu þjálla enda stend ég að þeirri breytingu sem ég vona að þingið samþykki. Þó að þetta sé í stóra samhenginu ekki aðalmálið, þá er þetta eitt af því sem skiptir máli.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna, af því að ég hef talað svolítið um kjörin og kostnaðinn og allt það, að hér er auðvitað verið að fjalla töluvert um endurmenntun dómara. Það var eitt af því sem var gagnrýnt að hefði ekki gengið sem skyldi í kerfinu fram til þessa. Sterkar skoðanir voru á því, og það kemur fram á bls. 40 í frumvarpinu, þar sem fjallað er um laun og starfskjör, að áður fyrr gátu dómarar sótt endurmenntunarstyrk í endurmenntunarsjóð dómara og ríkissaksóknara en því hefur verið breytt. Nú á dómari rétt á launuðu námsleyfi til endurmenntunar á fjögurra ára fresti, fyrst þó eftir fjögur ár í starfi og ávinnur sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Mest getur þá uppsafnaður réttur orðið sex mánuðir og hann greiðist ekki út við starfslok heldur verður viðkomandi að nýta sér hann. Bókun kjararáðs varðandi dómara við Hæstarétt var kannski íþyngjandi vegna þess að það var takmarkað við að ekki gætu fleiri en einn dómari verið í leyfi á hverjum tíma. En þetta þýðir í raun í stöðugildum talið að á ári hverju er um það bil einn dómari frá sökum endurmenntunar. Það er í sjálfu sér ágætt að dómarar sæki sér endurmenntun. Það er algjörlega nauðsynlegt og mikilvægt í þessum heimi sem við búum í sem breytist stöðugt.

Í blálokin varðandi fjárveitingarnar þá á dómstólasýslan, og það er nýjung í þessu frumvarpi, að leggja mat á og gera tillögur til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til stofnana dómskerfisins að fengnum tillögum einstakra dómstóla. Sú stofnun tekur við hlutverki dómstólaráðs og Hæstaréttar að þessu leyti. Ráðherra á svo að koma fyrir fjárlaganefndina og gera grein fyrir því, það hefur ekki verið áður, ef hann víkur frá tillögum stjórnar dómstólasýslunnar og öðrum þeim frávikum sem geta komið fyrir vegna frumvarps til fjárlaga.

Í fjárlögum á að sundurliða fjárveitingar til allra dómstólanna, til Hæstaréttar, Landsréttar, héraðsdómstólanna, og svo dómstólasýslunnar. Það á því að vera mjög þægilegt að ramma þetta inn og sjá þetta. En á sama tíma að halda utan um það hvar hætta er á því að frávik geti orðið og hvar ekki. Ég hef, eins og ég sagði áðan, áhyggjur af því að þetta kerfi okkar sé vanfjármagnað og vonast til þess að svar komi frá ráðuneytinu þó svo að málið sé komið hér í 2. umr.