145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 2011 voru sett á Alþingi lög um skipan rannsóknarnefnda, en á grundvelli þeirra laga hefur verið ráðist í tvær umfangsmiklar rannsóknir samkvæmt ákvörðunum Alþingis, annars vegar á Íbúðalánasjóði og hins vegar á sparisjóðunum.

Í ljós kom við þá reynslu að lagaramminn sem þessar rannsóknir hafa verið framkvæmdar innan hafi um margt verið óskýr. Það frumvarp sem við fengum í hendur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er runnið frá forsætisnefnd þingsins sem stóð einhuga að flutningi þess og var sett fram með það að markmiði að gera lagarammann skýrari, að fjárhagslegur grundvöllur slíkra rannsókna, umfang, ætti að vera betur afmarkað í lögum en gert er samkvæmt núgildandi lögum.

Það varð þess valdandi að ályktun sem samþykkt var á Alþingi haustið 2012 hefur ekki komist í framkvæmd vegna þess að beðið hefur verið eftir þessari lagabreytingu. Þess vegna er það fagnaðarefni að þetta frumvarp sé nú komið fram og er það nú vonandi á lokastigum.

Á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var fjallað um ýmis atriði málsins, meðal annars hvernig væri hægt að vanda betur undirbúning skipunar rannsóknarnefnda. Með frumvarpinu er meðal annars leitast við að skýra betur hlutverk forseta Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í þessu ferli.

Meginviðfangsefni rannsóknarnefndar er að upplýsa mál og um leið að skapa grundvöll fyrir viðbrögð Alþingis eða hlutaðeigandi stjórnvalda. Nefndin ræddi nokkuð um þá gagnrýni sem komið hefur fram um að ályktanir um skipun rannsóknarnefnda hafi ekki allar verið nægilega markvissar og bendir á að vandaður undirbúningur sé grundvallarforsenda þess að vel takist til. Í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að áður en tillaga um skipun rannsóknarnefndar er samþykkt skuli leita umsagnar forseta Alþingis sem heimilt verði að leita umsagnar ríkisendurskoðanda og umboðsmanns. Nefndin telur það mjög mikilvægt í ljósi þess að þessar tvær stofnanir þingsins hafa þá þekkingu og reynslu af rannsóknum og úttektum sem nauðsynleg er til að leggja vandaðan grunn að undirbúningi slíkrar tillögu. Nefndin telur mikilvægt að í upphafi verks verði gerð verk- og kostnaðaráætlun sem kynnt verði forseta Alþingis. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar frá Jafnréttisstofu um að gæta þyrfti að því við skipun nefnda að hafa hlutfall kynja sem jafnast. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en telur ekki þörf á að taka það sérstaklega fram í ljósi gildissviðs laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Með öðrum orðum: Það séu í gildi lög sem tryggja eigi þetta óháð því hvað stendur í frumvarpinu.

Nefndin ræddi nokkuð um kostnað við rannsóknarnefndir og hvort eftirlit með starfsemi þeirra væri fullnægjandi. Í frumvarpinu er lagt til að formaður rannsóknarnefndar skuli veita forseta Alþingis upplýsingar um rekstur og útgjöld rannsóknarnefndar. Þá eru lagðar til breytingar varðandi undirbúning tillögu um skipun rannsóknarnefndar í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd meti sérstaklega tilefni og grundvöll rannsóknar, hvert sé mögulegt umfang hennar og afmörkun sem og hvort önnur úrræði séu tiltæk. Í greininni er einnig lagt til að nefndin leggi mat á fjölda nefndarmanna og hvaða kröfur gera eigi til faglegrar þekkingar þeirra og loks að áætla kostnað við verkið. Einnig er lagt til að leita skuli umsagnar forseta Alþingis sem heimilt verði að leita umsagnar ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis. Nefndin telur mjög mikilvægt að vanda undirbúning og því er til mikilla bóta að kveða skýrt á um verkefni forseta Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þessu leyti.

Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að formaður rannsóknarnefndar beri ábyrgð á fjárreiðum nefndarinnar og sé í fyrirsvari fyrir nefndina þar til endurskoðun á reikningslegu uppgjöri hefur farið fram. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að formaður rannsóknarnefndar skuli afhenda forseta Alþingis reikningslegt uppgjör yfir störf rannsóknarnefndar og árita það innan þriggja mánaða. Nefndin telur nauðsynlegt að kveða skýrt á um ábyrgð formanns hvað varðar fjárreiður nefndarinnar og skil á uppgjöri og telur það til þess fallið að veita aðhald við rekstur slíkra nefnda. Nefndin tekur einnig undir mikilvægi þess að kveða skýrt á um skyldu forseta Alþingis til að hafa eftirlit með því að verk- og kostnaðaráætlun standist, en í a-lið 10. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að rannsóknarnefnd skuli veita forseta Alþingis upplýsingar um rekstur og útgjöld rannsóknarnefndar. Nefndin telur það til þess fallið að veita nauðsynlegt aðhald við umfang og rekstur slíkra nefnda.

Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um að þegar lögin öðlist gildi skuli stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalla um ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf., í því skyni að tryggja að afmörkun og umfang rannsóknarinnar og undirbúningur verði í samræmi við ákvæði laga þessara. Nefndin telur í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eðlilegt að kveða á um slíka endurskoðun á ályktun Alþingis.

Í 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um að Alþingi geti hvenær sem er breytt eða afturkallað rannsókn með nýrri ályktun. Nefndin telur óþarft að kveða á um slíkt í lögum þar sem það felst í hlutverki þingsins að geta ályktað um mál að nýju ef svo ber undir og leggur því til að málsgreinin falli brott.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, þ.e. 5. mgr. 1. gr. falli brott.

Hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson og Willum Þór Þórsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Brynhildur Pétursdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu. Undir álitið rita síðan hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Brynjar Níelsson, Össur Skarphéðinsson, Elsa Lára Arnardóttir og Árni Páll Árnason.

Hæstv. forseti. Ég hef stuðst við nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í þessari ræðu, nánast lesið álitsgerð okkar upp orðrétt til að hafa þetta allt með sem skýrustum hætti.