145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að lengja umræðuna. Ég vildi bara koma hér upp og fagna því að þetta frumvarp sé komið fram og að málið sé komið þetta langt. Við getum væntanlega greitt atkvæði um það fljótlega.

Við höfum aðeins brennt okkur á því undanfarin ár að kostnaður við rannsóknarnefndirnar hefur farið verulega fram úr áætlun. Ég veit ekki einu sinni hvort áætlanir hafa í öllum tilfellum legið fyrir í upphafi. En kostnaðurinn við sparisjóðaskýrsluna og skýrsluna um Íbúðalánasjóð er yfir milljarður króna.

Það er á okkar ábyrgð að vel sé farið með fé og að þegar farið sé í þau mikilvægu verkefni sem þessar rannsóknir eru sé alveg ljóst að hverri krónu sem eytt er sé vel varið.

Þess vegna höfum við hnykkt á því í nefndaráliti okkar. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

Nefndin telur mikilvægt að í upphafi verks verði gerð verk- og kostnaðaráætlun sem kynnt verði forseta Alþingis.

Ég ætla að ganga lengra og segja: Að sjálfsögðu á ekki að fara í slíkt verkefni nema fyrir liggi ítarleg verk- og kostnaðaráætlun og tímarammi. Það er algjört grundvallaratriði.

Rannsóknarnefndir eru mjög mikilvægar. Þær hafa heimildir til að rannsaka og fara ofan í mál sem aðrir hafa jafnvel ekki. En við þurfum að passa okkur að fara ekki offari og vanda vel til verks þannig að peningarnir nýtist sem best.

Ég tek undir það sem sagt var áðan varðandi þingsályktun um einkavæðingu bankanna. Hún var auðvitað samin áður en farið var í rannsókn á sparisjóðunum og Íbúðalánasjóði og er þar af leiðandi allt of víðtæk. Við vitum í dag hvað það kostar að fara í slíka rannsókn ef hún er ekki vel afmörkuð.

Margt af því sem snýr að einkavæðingu bankanna liggur þegar fyrir en nýjar upplýsingar líta nú dagsins ljós og ætti að rannsaka það sérstaklega. Það þarf að skoða þetta allt og við verðum að vera viss um þegar við förum í svona rannsóknir að eftir einhverju sé að slægjast. Það er bara það sem ég er að reyna að segja hér, að við förum vel með almannafé.

Ég held að þessar breytingar á lögum séu af hinu góða. Mikil og góð samstaða var í nefndinni, það voru góðar umræður um þetta mál, eins og mér finnst nú oftast vera í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það gengur bara mjög vel og ég er mjög sátt við þetta mál.