145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég átti þátt í því á sínum tíma að vinna að frumvarpinu sem síðar varð að lögum um rannsóknarnefndir Alþingis árið 2011. Ég held að við öll sem komum að því nefndarstarfi höfum gert okkur grein fyrir því að það þyrfti í ljósi reynslu að gera breytingar á þeim lögum, menn voru að mörgu leyti að prófa sig áfram með löggjöf á nýju sviði. Ég held að við höfum öll horfst í augu við það að þegar nokkur reynsla væri komin á framkvæmd laganna gæti verið tilefni til endurskoðunar.

Það frumvarp sem forseti þingsins og forsætisnefnd hafa lagt fram tekur á held ég öllum þeim atriðum sem upp hafa komið í störfum rannsóknarnefnda á undanförnum árum. Það er mat mitt eins og annarra þingmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að frumvarpið sé vel til þess fallið að lagfæra þá annmarka sem finna má á núgildandi löggjöf.

Eins og aðrir hafa rakið er kannski mikilvægast í þessu sambandi að tryggt sé með málsmeðferð í þinginu áður en að tillögur eru samþykktar að efni tillagna til þingsályktana sem gera ráð fyrir stofnun rannsóknarnefnda sé afmarkað vel fyrir fram. Lagt sé raunverulegt mat á hvert umfang rannsókna eigi að vera og að menn viti nokkurn veginn, sjái nokkurn veginn fyrir sér hvernig vinnan eigi að ganga. Eins og áður hefur komið fram í umræðum um þetta mál þá verður að horfast í augu við það, í tilviki þeirra tveggja rannsóknarnefnda sem starfað hafa á grundvelli laganna frá 2011, annars vegar um Íbúðalánasjóð og hins vegar um sparisjóðina, að af hálfu þingsins var ekki gengið nægilega vel frá þeim málum fyrir fram þannig að við getum orðað það þannig að starfið varð ekki eins markvisst og það hefði getað verið. Umfang skýrsluvinnunnar varð meira, kostnaður miklu meiri en nokkur gerði sér grein fyrir og ýmis vandamál af því tagi sem upp komu á leiðinni.

Þetta vildi ég almennt segja um frumvarpið sem ég styð að sjálfsögðu. Það verður seint með lagafyrirmælum hægt að koma í veg fyrir að menn misstígi sig eitthvað í framkvæmdinni. En á hinn bóginn tel ég að forsætisnefnd og þeir sem að frumvarpinu standa hafi gert það sem hægt er og raunhæft til þess að stýra þessu starfi í farsælli farveg.

Þær efnisbreytingar sem felast í frumvarpinu krefjast ekki sérstakrar umræðu af minni hálfu í dag. En ég ætla þó örlítið að víkja að eins og aðrir ræðumenn að meðferð þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna frá 2012 sem, eins og hér hefur komið fram, hefur verið hjá forseta í nokkurn tíma. Við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum litið svo á að rétt væri að bíða eftir því að þetta frumvarp næði fram að ganga áður en lengra yrði haldið í þeim efnum. Eins og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi að vinnu sem tengist meðferð þeirrar þingsályktunartillögu og meti hvaða þætti þurfi að skoða.

Það má segja að atburðir síðustu sólarhringa, ábending frá umboðsmanni Alþingis og umræður sem hafa átt sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gefi tilefni til að taka næsta skref sem yrði væntanlega það að sett yrði sérstök rannsókn til þess að fara yfir aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að sölu Búnaðarbankans.

Umboðsmaður Alþingis gerir tillögu um að þarna verði um að ræða stutta og afar markvissa rannsókn sem beinist að tilteknum, mjög afmörkuðum þáttum málsins sem ekki hafa fengist svör við í fyrri athugunum og rannsóknum á þeirri atburðarás sem þarna átti sér stað. Ég get tekið undir það að æskilegt er að málin fari í þann farveg.

Það er síðan verkefni fyrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ræða hvernig að öðru leyti verði farið með tillöguna frá 2012 um heildarendurskoðun eða heildarrannsókn á einkavæðingu bankanna við upphaf eða í upphafi aldarinnar.

Ég held að allir sem að þessu hafa komið geri sér grein fyrir því að rannsóknarnefndir eru og geta verið mjög mikilvægt tæki og það er mikilvægur þáttur í eftirlitshlutverki þingsins að geta sett á fót slíkar nefndir. Þetta er hins vegar líka viðkvæmt form og það verður að gæta þess að misnota það ekki, ofnota það ekki. Það verður líka að gæta þess að rannsóknarnefndir sem slíkar fari ekki inn á svið sem önnur stjórnvöld, eftirlitsstjórnvöld eða réttarkerfið hafa með höndum. Þetta er mikilvægt tæki en gæta verður þess að hvorki ofnota það né misnota. Ég vona líka að í þeim tilvikum þar sem við stöndum frammi fyrir spurningu um hvort við eigum að fara í rannsóknir af þessu tagi þá missi menn sig ekki í lýðskrumi eins og stundum hefur gerst heldur taki hlutverk og stöðu þessara rannsóknarnefnda alvarlega. Það má segja að á einhverjum tímapunktum geta stjórnmálamenn freistast til að slá pólitískar keilur með því að setja upp rannsóknarnefndir eða leggja fram tillögur um rannsóknarnefndir um hitt og þetta. En ég held að það sé mikilvægt að bæði við sem nú sitjum á þingi og þeir sem síðar koma taki þetta mjög alvarlega vegna þess að ef rannsóknarnefndir fara að verða vopn í hinni daglegu pólitísku baráttu missa þær þá stöðu og þann trúverðugleika sem nauðsynlegt er að þær hafi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri, en ég fagna eins og aðrir þeirri samstöðu sem hefur verið um afgreiðslu málsins í þinginu.