145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta Einari K. Guðfinnssyni og hans góða starfsfólki fyrir þá góðu vinnu sem fólgin er í undirbúningi þessa frumvarps. Sú vinna hefur síðan verið tekin af hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og brotin vel til mergjar. Má heita að það hafi verið einróma álit að hér hafi verið ákaflega vel að verki staðið. Ég tel að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að hér er um að ræða mál sem, eins og ég sagði í fyrra andsvari, er ekki dægurfluga heldur einn af hornsteinunum sem Alþingi hvílir á. Eitt af sterkustu og mikilvægustu hlutverkum Alþingis er aðhaldshlutverkið. Því ber að veita framkvæmdarvaldinu eins sterkt aðhald og hægt er. Á því hefur verið misbrestur. Við vitum að í gegnum tíðina hefur þróunin, að minnsta kosti á meðan ég hef verið hér, heldur hnigið á þá leið að framkvæmdarvaldið hafi seilst til aukinna ítaka innan löggjafans. Því hefur góðu heilli verið snúið til baka á síðustu árum. Þetta frumvarp um rannsóknarnefndir er gríðarlega mikilvægt tæki fyrir þingið til þess að sinna þeirri aðhaldsskyldu.

Frumvarpið felur í reynd í sér verulegar breytingar á lögum sem sett voru árið 2011. Þau voru barn síns tíma. Við settum þau lög til þess að svara ákveðnum þörfum en það verður að segjast alveg eins og er að þau lög hafa ekkert elst sérstaklega vel. Komið hafa í ljós ýmsir skavankar á þeim sem verið er að bæta úr hér. En mér finnst vera mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að það frumvarp sem hæstv. forseti leggur hér fram er partur af keðju breytinga sem menn hafa staðið fyrir á síðustu fjórum til fimm árum, allar götur frá því undir miðbik síðustu ríkisstjórnar og fram á þennan dag, þar sem verið er að koma í gegn löggjöf sem miðar að því að styrkja hið mikilvæga eftirlitshlutverk Alþingis.

Mér telst svo til að síðan árið 2011 höfum við í reynd gert sex mikilvægar breytingar sem púkka undir þetta hlutverk. Í fyrsta lagi var með breytingum á þingsköpum Alþingis, sem komu til framkvæmda síðla árs 2011, einni af fastanefndum Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í reynd falið eftirlitshlutverk Alþingis að meginstofni til. Á þeim tíma voru ekki allir fullsáttir við það, en reynslan hefur sýnt að það var mjög jákvætt. Undir farsælli stjórn hv. þm. Ögmundar Jónassonar hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sinnt þróun þessa nýja hlutverks mjög vel. Það hefur verið sérstaklega eftirtektarvert að þar hafa menn farið spart með þær heimildir sem nefndin hefur. Þegar ég skoða feril þeirra nefndar get ég ekki sagt annað en að þar hafi menn unnið til lykta öll mál, sum mjög flókin og vandasöm, með málefnalegum hætti. Það hefur vitaskuld verið ánægjuefni að fylgjast með því að menn á báðum vængjum stjórnmálanna hafa þar gert sér far um að reyna að ná niðurstöðu sem byggist ekki á pólitískum keiluslætti hversdagsins heldur á málefnalegri og hlutlægri umfjöllun. Það skiptir miklu máli að þingið hafi náð þeim þroska, ég tala nú ekki um að við skulum hafa nefnd eins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem getur með þannig hugarfari sinnt þessum verkum afar vel. Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson drap á áðan eru ýmis tæki sem Alþingi hefur, en stundum reiða menn of hátt til höggs. Menn verða að nota þessi tæki af mikilli yfirvegun og grunda það vel.

Í öðru lagi er enn fremur kveðið á um aukinn rétt þingnefnda til upplýsinga, sem skiptir að minnsta kosti mig sem þingmann mjög miklu máli.

Í þriðja lagi er kveðið sérstaklega á um rétt minni hlutans innan þingnefnda til að óska gagna og upplýsinga. Oft er það þannig að misklíð hefur risið í þessum sölum vegna þess að minni hlutinn telur að gengið sé á rétt sinn. Stjórnvitur meiri hluti leggur sig í líma til þess að reyna að gera stjórnarandstöðunni hverju sinni kleift að fá allar þær upplýsingar sem hún vill, því að einungis með því að draga öll gögn upp á borðið og sýna aldrei viðleitni til að fela geta menn að lokum náð sátt um staðreyndir. En oft er það krafan um upplýsingar sem framkvæmdarvaldið hefur ekki orðið við sem leitt hefur til óþarfa kífs og ágreinings í þessum sölum.

Jafnframt var í fjórða lagi kveðið enn fastar á um upplýsingaskyldu ráðherra. Við þekkjum það nú sem höfum verið lengi hér á dögum hversu ertandi það getur verið, sérstaklega fyrir lundarfar viðkvæmra þingmanna, að spyrja spurninga og fá ítrekað ekki svör. Ég gæti nefnt dæmi sem rís hátt í samtímanum, sem einstakir dagfarsprúðir þingmenn stjórnarandstöðunnar, eins og hæstv. 1. varaforseti Kristján L. Möller, eru ákaflega ósáttir við að hafa ekki fengið upplýsingar um með nægilega skýrum hætti. Ég ætla ekki að fara frekar út í það. En það er mjög mikilvægt að í gadda sé slegin sú skylda sem ráðherrar hafa til þess að veita upplýsingar gagnvart þingmönnum.

Í síðasta lagi voru sett hin merkilegu lög um rannsóknarnefndirnar árið 2011. Það eru þau lög sem við erum nú að þróa áfram og breyta með ákaflega góðum hætti í því frumvarpi sem hæstv. forseti hefur lagt hér fram og mælt fyrir. Ég tel að það sé mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að hér er að verki samfelld þróun. Undir forustu hæstv. forseta Einars K. Guðfinnssonar hafa menn í einlægni verið að reyna að styrkja þau tæki sem þingið hefur og um leið að búa svo um hnútana að ekki rísi óþarfaágreiningur sem hægt væri að ræða til þrautar og skilja eftir í fortíðinni án þess að hann leiði til langvinnra deilna. Breytingarnar sem hér er um að ræða eru allar til hins betra og þær byggja á reynslu. Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði í stórgóðri ræðu áðan þá hættir mönnum til að reiða hátt til höggs í hita leiksins. Þá hættir mönnum til þess að fara fram með tillögur um rannsóknir sem hafa hugsanlega ákaflega veikt andlag. Ég get nú trútt um talað. Ég minnist þess, eins og ég veit að hæstv. forseti man líka eftir, að árið 1994 var samþykkt hér tillaga um nefnd sem átti að rannsaka sérstaklega jafn sakleysisleg ummæli og féllu á ráðherraskrifstofu einn góðan veðurdag í síma þar sem tilteknum embættismanni var óskað gleðilegra jóla. Það varð tilefni margra daga umræðna og þáverandi ráðherraræfill, sem stendur hér sem 4. þingmaður Reykjavíkur norður, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

Menn verða sem sagt að gæta þess hvernig þeir nýta þessi tæki. En þá ber á hitt að líta að mannssálin er breysk. Og af því að hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að mönnum hætti til að leggja hér fram tillögur um rannsóknir á málum einfaldlega til þess að lyfta þeim upp og hugsanlega til að gera pólitíska andstæðinga sína tortryggilega, þurfum við líka að byggja inn í umbúnaðinn um þessar rannsóknarnefndir varnir við því. Það er gert í þessu frumvarpi. Mér finnst það vera mjög jákvætt við frumvarpið að forseta Alþingis er falið að tempra líkurnar á því að rannsóknartækinu og heimildunum sem í því felast verði beitt til þess að slá einhverjar billegar keilur í skæklatogi hversdagsins. Í frumvarpinu er sem sagt gert ráð fyrir að það þurfi skriflega umsögn forseta Alþingis um það hvernig verkefnið er mótað í þeirri tillögu sem lögð er fram áður en hún er afgreidd endanlega. Honum er sömuleiðis veitt heimild til þess að kalla sér til ráðgjafar þær stofnanir sem eðlilega á alltaf að kalla til ráðgjafar þegar Alþingi tekur ákvarðanir af þessu tagi, þ.e. umboðsmann Alþingis og eftir atvikum ríkisendurskoðanda.

Þegar maður skoðar hvernig Alþingi hefur á síðustu tveimur áratugum byggt upp tæki sín til þess að sinna stjórnarskrárbundinni skyldu sinni til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald verður ekki annað sagt en að tekist hafi vel til. Ég minnist þess þegar menn samþykktu hér fyrir einum 20 árum frumvörp um að stofna embætti umboðsmanns Alþingis að menn voru ekki á eitt sáttir. Ég man vel eftir því sem partur af því liði sem fór með framkvæmdarvaldið, að það vildi fyrir fram stýfa vængi þess embættis með því að veita framkvæmdarvaldinu miklu meiri ráðstöfunarrétt á ákvörðunum sem tengdust skoðunum og rannsókn umboðsmanns. En okkur tókst þá og hefur tekist síðan að halda því embætti mjög sjálfstæðu. Að sama skapi má segja að Ríkisendurskoðun hafi þróast með ákaflega jákvæðum hætti. Þessar tvær stofnanir og síðan hin þriðja sem finna má innan Alþingis, sem er lagasvið Alþingis, eru í reynd safn tækja sem Alþingi getur beitt bæði til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, en sömuleiðis til að tempra sjálft sig. Það er líka mikilvægt.

Ég sagði það hreinskilnislega hér áðan að þegar maður lítur til baka og skoðar tillöguna sem hér var samþykkt í október 2012 um úttekt á einkavæðingum bankanna, sem var mikið hitamál á þeim tíma, þá verð ég að fallast á það, þó að ég hafi stutt hana eins og mjög margir á þeim tíma, að sú tillaga hefur ekki elst vel. Hún er í reynd gott dæmi um hversu jákvætt það hefði verið að hafa atbeina forseta Alþingis með þeim stuðningi sem hann hefur af umboðsmanni Alþingis, eftir atvikum ríkisendurskoðanda, og síðan auðvitað sínum góðu lagatröllum innan lagasviðsins, til þess að afmarka hana betur. Þegar maður skoðar hana í dag liggja stórir partar af henni nú þegar fyrir, eins og við vitum, og lágu fyrir þegar tillagan var samþykkt. Sömuleiðis er þar að finna efnisþætti sem eru þess eðlis að ef menn ættu að reyna að kafa til botns í því sem þar er óskað gætu menn setið við það til eilífðarnóns. Það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga. Af því öllu saman getum við lært.

Sömuleiðis getum við lært af þeim tveimur skýrslum sem rannsóknarnefndir hafa skilað frá sér til þessa. Ég held að það sé nokkuð útbreidd skoðun að þær hafi ekki endilega verið tímans eða peninganna virði. Ég segi fyrir sjálfan mig að úttektin á Íbúðalánasjóði var einskis virði fyrir mig og skilaði engu sem mér fannst tosa okkur eitthvað fram á við.

Niðurstaðan er þessi: Það er líklegt að ef ekki er teiknaður upp rammi sem gerir sameiginlegri visku þingsins kleift að takmarka erindið sem felst í slíkum tillögum, að menn eyði ekki bara miklum tíma heldur gríðarlega miklum fjármunum til þess að komast að niðurstöðum sem ekki eru þess virði sem í þær er eytt. Ég tel að með þessu frumvarpi sé búið að a.m.k. lágmarka líkurnar á slíku. Auðvitað er það þannig, svo ég hrósi nú hæstv. forseta Einari K. Guðfinnssyni, að veldur hver á heldur. Það er ekki sama hver er forseti þings. Þeim forseta sem nú gegnir þeirri stöðu treysti ég til allra hluta og til að taka hlutlæga og málefnalega afstöðu í hverju máli. En á mínum 25 ára ferli í þessum sölum eru dæmi um menn sem voru mjög virkir í hinu pólitíska skaki og maður vissi aldrei hvernig mundu bregðast við. Það breytir ekki hinu að hér erum við að gera mjög einbeitta tilraun til þess að færa þetta á form sem dregur úr líkum á að þessu rannsóknartæki verði misbeitt Það er mikilvægt að menn hugi að því.

Að því sögðu lýsi ég náttúrlega einlægum stuðningi mínum við þetta mál. Það er eitt örlítið atriði, reyndar tvö, sem ég velti fyrir mér. Mig langar til að spyrja hv. formann nefndarinnar. Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að ef nefndin kemst að niðurstöðu um að einhver tiltekinn aðili hafi gerst brotlegur getur hún eftir atvikum komið því til ríkissaksóknara. Nefndin á jafnframt að setja tilkynningu um slíkt inn í skýrsluna sem hún birtir. Það er opinber skýrsla. Gott og vel fram að þessu. En það kemur sérstaklega fram í greininni að sá sem slíkum áburði sætir á ekki kost á því að koma fyrir nefndina og tjá afstöðu sína eða eftir atvikum koma fram andmælum sínum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg á jaðri þess sem þingið getur leyft sér og vildi þess vegna a.m.k. í fullri vinsemd beina því til hv. formanns nefndarinnar hvort þetta sé ekki eitthvað sem menn ættu aðeins að velta fyrir sér. Ég á ekki sæti í nefndinni nema sem varamaður en hef setið þar síðustu daga við að fara yfir þetta mál. Ég varð þess áskynja að þar vilja menn vinna verk sín afar vel, en þessi umbúnaður hér rifjar upp, a.m.k. í mínu minni, heldur andstyggilegar minningar, m.a. um svipaða málsmeðferð þegar menn voru hér fyrir einni nefnd þingsins settir á þann stað sem að lokum leiddi þá fyrir Landsdóm án þess að þeir ættu nokkru sinni möguleika á því að koma sjálfir fyrir nefnd þess þings sem þeir sátu þó sjálfir á, til þess að koma málstað sínum og vörnum á framfæri með sínum orðum. Nefndin þarf að skoða þennan þátt betur.

Í öðru lagi hnaut ég aðeins um næstsíðustu málsgreinina í 1. gr. laganna þar sem mér sýnist á orðalaginu að tillaga um skipun rannsóknarnefndar hafi aðra stöðu en aðrar tillögur sem fram koma í þinginu. Þegar tillögur koma hér til afgreiðslu og umfjöllunar í þinginu fara þær í gegnum 1. umr. og er vísað til nefndar. Það fer síðan eftir formanni nefndarinnar, meiri hluta í nefndinni, hvort göngu tillögunnar lýkur þar eða hvort hún er send áfram til þingsins. Það gerist aldrei nema samþykkja eigi tillöguna. Orðalag þessarar málsgreinar er hins vegar með þeim hætti að ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að komi fram tillaga um skipun rannsóknarnefndar beri að vísa henni, ef hún kemur frá einstökum óbreyttum þingmanni en ekki nefndinni sjálfri, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem gefur þinginu álit sitt um hana að fenginni umsögn forseta Alþingis. Síðan segir, með leyfi forseta:

„… áður en greidd eru atkvæði um tillöguna við síðari umræðu.“

Mér sýnist á því orðalagi að það sé fortakslaust að tillögur um rannsóknarnefnd hafi því aðra stöðu en aðrar tillögur að því marki að hvort sem þingið mun greiða þeim atbeina sína eða ekki, ber að leggja þær til lokaumræðu fyrir þingið. Þingið stendur þá andspænis því að samþykkja tillöguna eða hafna henni. Það er niðurstaða sem getur hugsanlega verið takmark þess sem leggur slíka tillögu fram og ekki endilega af göfugum hvötum.

Frú forseti. Þetta vildi ég spyrja hv. þingmann og formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um hvort sé réttur skilningur, því að ég er bókstafstrúarmaður og bókstafurinn hljóðar svona og þá hljóta menn að fara eftir honum. Er það ekki rétt skilið hjá mér, hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar?