145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir prýðilega og ítarlega ræðu enda tilefni til þess. Ég er sammála honum um hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hve mikilvægt það er og að okkur takist að þróa það starf farsællega inn í framtíðina. Ég tel að við séum að stíga ýmis jákvæð skref og eitt af þeim er tvímælalaust það frumvarp sem við erum nú senn að afgreiða frá okkur.

Það voru nokkur efnisatriði sem hv. þingmaður nefndi. Í fyrsta lagi í 1. gr. frumvarpsins þar sem vísað er til málsmeðferðar tillagna sem berast stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og með hvaða hætti hún skuli fjalla um málin. Hv. þingmaður spyr hvort skilja eigi greinina á þann veg að það beri að vísa öllum málum sem fyrir nefndina koma til atkvæðagreiðslu og afgreiðslu í þingsal. Það er rétt að þannig má skilja þessi orð en þau eru að sönnu skilyrt vegna þess að ákveðnar forsendur þurfa að vera til staðar til að svo sé gert. Síðan er það hitt, pólitískt mat okkar og skynsemis- og sanngirnisrök sem hníga að því hvort ekki sé eðlilegt að þau mál sem koma til kasta þingsins og fara til þingnefnda séu almennt afgreidd í atkvæðagreiðslu í þingsal. Það er almenn stefnumörkun sem ég held að margir séu tvímælalaust hlynntir. Hins vegar kunna að vera á því undantekningar, t.d. ef nefnd metur það svo að kanna þurfi mál frekar, kalla þurfi eftir frekari upplýsingum um efnisþætti máls, að það sé ella vanreifað; þá hlýtur viðkomandi nefnd að líta á það sem skyldu sína að kalla eftir slíkum upplýsingum.

Ég er sammála þeirri meginhugsun sem snertir samþykktir þingsins um rannsóknir sem koma til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða þegar slíkum málum er vísað til nefndar, þá eigi að stefna að því að það sé afgreitt í þingsal.

Síðan vísar hv. þingmaður í 5. gr. laga frumvarpsins þar sem vikið er að því að vakni grunur við rannsókn rannsóknarnefndar um að refsivert athæfi hafi átt sér stað sem tilkynnt er til ríkissaksóknara, og þá er einnig vísað til brota eða grunsemda um brot framið af opinberum starfsmönnum, skuli málum vísað áfram og þingmaður spyr hvort nefndinni sé þá ekki skylt að veita viðkomandi einstaklingi möguleika á að tjá sig, hvort henni sé ekki skylt að tryggja viðkomandi einstaklingi andmælarétt. Nú er það svo að sé máli skotið til réttarkerfisins er gætt að því að viðkomandi einstaklingur fái notið slíks andmælaréttar við meðferð málsins þar. En ég vek athygli á að þótt nefndinni sé ekki skylt að gera þetta er ekkert sem kemur í veg fyrir að slík heimild sé veitt við rannsókn mála. Þetta var reyndar eitt af því sem fundið var að í rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð sérstaklega, sem hv. þingmaður gagnrýndi og ég get að mörgu leyti tekið undir þá gagnrýni. Þar voru menn bornir ýmsum þungum sökum og þó að þar væri ekki talið að um refsivert athæfi hefði verið að ræða, voru menn bornir þungum sökum sem þeir fengu síðan ekki tækifæri til að skýra. Almennt finnst mér það eigi að vera reglan, hin almenna vinnuregla, að menn fái að skýra sitt mál ef grunur leikur á að þeir hafi gert eitthvað rangt í sínu starfi.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa umfjöllun um frumvarpið og vona að það eigi eftir að verða að lögum innan fárra daga, helst í þessari viku.