145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni nokkuð skýr svör. Ég skil þá þau fyrirmæli sem koma fram í næstsíðustu málsgrein 1. gr. á þann veg að alla jafna sé gert ráð fyrir að tillaga um rannsóknarnefnd komi að lokum hingað inn aftur til lokaatkvæðagreiðslu. Þó geti komið upp sú staða að ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd finnst tillagan vanreifuð liggi hún eins og títt er um aðrar þingsályktunartillögur sem menn sjá ekki sérstaka ástæðu, á tæknilegum forsendum, til að vinna áfram.

Um hitt segi ég bara að ég ætla ekki að japla á þessu skinni frekar. Ég neita því samt sem áður ekki að þrátt fyrir skýringar hv. þingmanns er mér svolítið erfitt að fallast á málsbúnað sem er svona, með leyfi forseta:

„Ekki er skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun rannsóknarnefndar að senda mál til ríkissaksóknara eða tilkynna það forstöðumanni eða ráðuneyti, sbr. 2. mgr. Upplýsingar um slíkar tilkynningar skulu birtar í skýrslu rannsóknarnefndar.“

Ef nefndin sér ástæðu til að tala við yfirmann stofnunar þá getur það hugsanlega leitt til mjög vægra viðurlaga eins og áminninga. Það er yfirleitt innbyrðis mál forustu stofnunarinnar og starfsmannsins og er ekki birt á torgum. Í öðru lagi er sá möguleiki uppi að jafnvel þó að nefnd sendi mál til ríkissaksóknara komist hann að því að málið réttlæti ekki frekari rannsókn. Eftir sem áður er þá búið að fletja nafn viðkomandi út á síðum skýrslunnar og það verður alltaf fréttaefni, í þessu tilviki hugsanlega að ósekju.