145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 230/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

684. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/?2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn er fjallar um umhverfismál.

Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið á sinn fund til umræðu um málið Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á viðauka um umhverfismál, auk þess sem þarna er að finna viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1013/2006, um tilflutning úrgangs.

Umræddri reglugerð, nr. 660/2014, er ætlað að bæta framfylgni og eftirlit með flutningi úrgangs og koma í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi milli ríkja. Ekki er um að ræða ríkari kröfur eða kostnaðarauka fyrir þá sem starfa við að flytja úrgang milli ríkja. Þetta kom fram í umræðu í nefndinni, en reglur er varða eftirlit eru gerðar skýrari og auknar kröfur gerðar til eftirlitsaðila. Meðal annars eru í reglugerðinni nú gerðar kröfur um virkt eftirlit, eftirlitsferðir og skoðanir sem ekki er að finna í fyrri reglugerð og gildandi lögum. Reglugerðin kveður einnig á um að koma skuli á laggirnar eftirlitsáætlun sem byggist á áhættumati og að það mat skuli byggt á greiningum lögregluyfirvalda og tollyfirvalda ef þær liggja fyrir. Eftirlitsáætlun skal beinast að fyrirtækjum, söfnunaraðilum og flutningsaðilum og skal innihalda markmið og forgangsatriði, eftirlitssvæði, upplýsingar um áætlað eftirlit, verkaskiptingu stofnana og samvinnu, upplýsingar um þjálfun eftirlitsaðila og upplýsingar um mannaforráð og fjármögnun eftirlits. Áætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti í ljósi reynslu en árlega skal skila skýrslu um eftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Innleiðing reglugerðanna hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi. Nefndin bendir á að samkvæmt reglugerðinni eiga nýjar eftirlitsáætlanir að taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2017 og því ætti að hraða frumvarpsvinnu eins og kostur er.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt.

Líkt og í fyrri málunum sem ég hef lesið hér upp var hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir nefndarálit hv. utanríkismálanefndar ritar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson.