145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

685. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um umhverfismál.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Með tillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á umræddum viðauka er fjallar um umhverfismál og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 sem fjallar um losun í iðnaði. Það eru samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun, auk tengdra gerða.

Til nánari útskýringar sameinar þessi tilskipun sjö eldri gerðir um samþættar mengunarvarnir og gengur lengra en eldri tilskipanir. Hún byggist á heildstæðri nálgun um að tekið sé tillit til umhverfisins í heild sinni, þ.e. mengunar í lofti, vatni og jarðvegi. Það er ekki aðskilið heldur ákveðið í sameiningu og samræmi. Helstu nýmæli sem tilskipunin felur í sér eru ákvarðanir um bestu fáanlegu eða aðgengilegu tækni, skilgreint BAT, og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra BAT-niðurstaðna sem tilgreina hvaða skilyrði skulu gilda um starfsemi í starfsleyfum. Það sem þetta felur í sér er að lengra sé gengið í tilteknum mengunarvörnum en áður var og þar er einnig að finna strangari viðurlög við brotum er tengjast starfsleyfum.

Auk tilskipunarinnar voru með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 teknar upp 12 ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB sem allar eiga stoð í tilskipuninni og útfæra efni hennar nánar. Ákvarðanirnar eru endurútgáfur og uppfærslur á eldri gerðum og er ætlað að auka skýrleika reglnanna.

Virðulegur forseti. Áætlað er að kostnaður við innleiðingu tilskipunarinnar sem við ræðum hér og tengdra gerða verði óverulegur og talið að hann rúmist innan núverandi fjárheimilda Umhverfisstofnunar. Auknar kröfur geta þó leitt til kostnaðar fyrir fyrirtæki við endurskoðun og uppfærslu starfsleyfa. Nefndin bendir þó á að í áliti umhverfis- og samgöngunefndar um upptöku tilskipunarinnar, samanber 2. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála, kemur fram að í mörgum starfsleyfum fyrir mengandi starfsemi hér á landi eru strangari skilyrði en tilgreind eru í gildandi tilskipun. Þessi umræða leiddi af sér þá niðurstöðu að það væri ekki mat nefndarinnar að þetta fæli í sér verulegan kostnað eða verulega breytingu aðra en þá sem þegar er til staðar.

Innleiðing gerðanna kallar hins vegar á breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að gert sé ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga lögunum á yfirstandandi þingi.

Nefndin leggur því til að málið verði samþykkt. Hv. þm Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Undir nefndarálitið ritar því sú sem hér stendur, auk hv. þingmanna Karls Garðarssonar, Frosta Sigurjónssonar, Elínar Hirst, Óttars Proppés, Silju Daggar Gunnarsdóttur, Steinunnar Þóru Árnadóttur og Össurar Skarphéðinssonar.