145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera rekstrarstöðu framhaldsskólanna að umtalsefni. Það hefur mikið verið rætt um þá undanfarin ár. Árið 2014 kom skýrsla frá Ríkisendurskoðun þar sem fjallað var um rekstrarstöðu framhaldsskólanna og reiknilíkan. Í þessari skýrslu sem kom út í byrjun árs 2014 var kallað eftir því að reiknilíkanið verði endurskoðað og launastikan svokallaða eigi að endurspegla raunverulegan kostnað vegna kennslu. Í skýrslunni segir orðrétt sem ábending til ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að endurskoðað reiknilíkan nýtist sem raunhæft tæki til að áætla nauðsynleg framlög til skólanna. Ráðuneytið þarf sérstaklega að gæta að því að launastika líkansins taki mið af raunverulegum launakostnaði skólanna þar sem laun eru langstærsti útgjaldaliður þeirra og vanmat á honum getur valdið skólunum alvarlegum rekstrarvanda.“

Nú er 2016 og liðin tvö ár síðan þessi skýrsla kom út og staða framhaldsskólanna hefur síst batnað. Ég upplifi það þannig að hæstv. ráðherra sé einhvern veginn að bíða eftir því að stytting framhaldsskólastigsins muni skila einhverjum sparnaði inn í kerfið en það er ekki hægt að bíða eftir því. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu framhaldsskólanna, ég hef ekki upplifað og heyri hvergi að það sé eitthvert bruðl og óráðsía sem hafi valdið þessum rekstrarvanda. Skólarnir hafa staðið í niðurskurði í mörg ár, fram að hruni í rauninni, voru farnir að rétta úr kútnum þegar hrunið varð. Staðan er mjög alvarleg og ég vona að hæstv. ráðherra og ráðuneytið heyri þá umræðu sem er þarna úti og þetta ákall um að bæta rekstrarstöðu framhaldsskólanna þannig að við getum a.m.k. slefað upp í meðaltal OECD-ríkjanna þegar kemur að framlögum til framhaldsskólastigsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna