145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Verður eða verður ekki kosið í haust? Nú hafa þingmenn Framsóknarflokksins ítrekað komið hingað í pontu og sagt að það sé persónulegt mat þeirra að kannski sé ekki sniðugt að kjósa í haust, að það sé betra að klára þingið því að svo mörg mikilvæg mál, eins og verðtryggingin og ég veit ekki hvað, þyrftu einfaldlega að komast í gegn. Það hefur verið reynt að fá þáverandi hæstv. forsætisráðherra, nú hv. þm. Framsóknarflokksins Sigmund Davíð Gunnlaugsson, hingað upp í pontu til að ræða þessa blessuðu verðtryggingu og það hefur ekkert gerst.

Við erum að tala um það að hér undir lok vetrar eða í byrjun sumars, liggur við, erum við enn að fá risastór mál upp í hendurnar. Bara núna í morgun sá ég að verið var að samþykkja það í ríkisstjórn að koma með nýtt LÍN-frumvarp. Hvernig eigum við að geta talað um það af einhverju viti? Þetta er náttúrlega bara til skammar. Það verður að endurheimta það traust á Alþingi sem Alþingi á skilið. Svona tal og svona framkoma af hálfu mjög valdamikilla manna í samfélaginu, sem segja að þeir hafi það ekkert í huga að kosið verði í haust, er mjög skaðlegt fyrir ímynd Alþingis.

Sjáum við fram á að halda út heilan vetur í viðbót? Er það út af því að sumt fólk er bara að hugsa um launin sín? Mér þykir þetta vera firra. Mér þykir þetta vera vanvirðing við alla aðra sem stunda vinnu hér, að þingmenn skuli reyna að grafa undan því sem bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa sagt hér í pontu, að það verði kosið í haust.

Hæstv. forseti. Ég vona innilega að það verði kosið í haust. Ég hef ekkert annað í höndunum en orðin tóm. Það er mjög góð ástæða fyrir því að fólk er hætt að treysta stjórnmálamönnum, við getum aldrei staðið við stóru orðin.


Efnisorð er vísa í ræðuna