145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að bregðast vel við og vilja taka við mig þessa umræðu um starfsemi kampavínsklúbba sem lengi hefur verið þeim sem hér stendur þyrnir í augum. Það má segja að ég hafi beðið um þessa umræðu í kjölfar þess að ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um tilvik sem tengjast starfsemi nefndra klúbba.

Í stuttu máli sagt fékk ég mjög greinargott svar frá hæstv. ráðherra þar sem tilvik voru brotin upp af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það kom á óvart í því svari að grunur er um svo margvísleg brot sem tengjast þessum klúbbum. Þar má nefna brot sem varða fíkniefnalöggjöfina, sölu vændis, líkamsárásir, bæði stórfelldar og minni háttar, fjármálabrot. Það sem einkennir þessi brot eða þessi tilvik er það að mörg þeirra eru ekki kærð. Í sjálfu sér má kannski segja að það sé ekki mjög einfalt fyrir þolendur. Það eru náttúrlega margs konar þolendur í þessum málum, þar á meðal eru menn sem detta inn á þessa staði í misjöfnu ástandi. Það hafa komið upp mál þar sem talið er að þeim hafi verið byrluð ólyfjan. Kortið þeirra hefur verið maxað, eins og það er kallað á góðri íslensku, á stuttum tíma. Það kann að vera erfitt fyrir menn að útskýra það fyrir þeim sem næst þeim standa hvernig á því megi standa. Það skýrir kannski að hluta til þau fáu mál sem kærð hafa verið.

Hins vegar eru það, og það er það sem er alvarlegt í þessu máli, brotin sem varða bæði vændi og grun um mansal. Í grein í Kjarnanum 13. september 2015, þar sem vitnað er í ársskýrslu ríkislögreglustjóra, segir, með leyfi forseta, að 58 sinnum frá árinu 2013 hafi komið upp tilvik þar sem grunur leiki á vændiskaupum, að 52 einstaklingar hafi verið kærðir, allir nema einn íslenskir.

Það vill svo til að um daginn var haldinn ágætur opinn fundur á vegum utanríkisráðuneytis, innanríkisráðuneytis og lögreglunnar í Reykjavík, um mansal. Það vildi svo ótrúlega til að þar var einn þingmaður staddur, sá sem hér stendur. Ég veit ekki hvort það er til marks um að þingmenn hafi yfirleitt ekki áhyggjur af þessu eða hvort menn hafi verið svona önnum kafnir við annað, en ég held að full ástæða sé til að gaumgæfa þessi mál verulega vegna þess að helsta orsök mansals, alla vega eins og þau hafa verið skilgreind erlendis til þessa, tengjast einmitt vændisstarfsemi og starfsemi sem tengist klúbbum líkum þeim sem hér eru reknir undir nafninu kampavínsklúbbar.

Það er afskaplega erfið sönnunarbyrði í mörgum þessara mála en engu að síður held ég að full ástæða sé til að reyna að stemma stigu við starfsemi þessara klúbba. Ég tel einfaldlega að þó að það sé sagt að klúbbarekstur af þessu tagi sé óaðskiljanlegur hluti ferðamennsku þá sé svona ferðamennska okkur Íslendingum ekki að skapi. Ég held ekki endilega að okkur langi til að fá hingað einstaklinga sem sækja í skemmtun af þessu tagi. Okkur væri örugglega alveg sama þó að þeir væru annars staðar að svala þeim hvötum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi hvort ráðherra telji að lagabreytingu þurfi til til þess að koma böndum á starfsemi þessara klúbba og/eða til að hægt sé að leggja þessa starfsemi niður. Ef ráðherra telur svo, hyggst ráðherra þá beita sér fyrir lagasetningu sem dugar til að koma starfsemi þessara klúbba fyrir kattarnef?