145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að óska eftir umræðu um þessa veitingastaði, sem kallaðir eru kampavínsklúbbar. Ég mun í þessari umræðu miða við þá starfsemi eða þá klúbba í ræðu um þetta mál. Eins og fram kom áðan svaraði ég skriflegri fyrirspurn frá hv. þingmanni fyrr í vetur um tilvik sem tengjast starfsemi kampavínsklúbba. Í tilefni af þeirri fyrirspurn óskaði ráðuneytið eftir umsögn frá embætti ríkislögreglustjóra. Í umsögninni kemur fram að öll tilvik af því tagi, sem hv. þingmaður spurði að, eru bundin við umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og miða svör því við þau tilvik sem skráð voru í því umdæmi.

Hv. þingmaður leggur áherslu á þau tilvik sem komið hafa til kasta lögreglu í tengslum við starfsemi umræddra klúbba. Í gögnum frá lögreglu kemur fram að á árinu 2011 til 25. maí 2016, þ.e. í dag, hafa 207 verkefni verið skráð á svokallaða kampavínsklúbba í dagbók eða málaskrá lögreglu og er þar helst um að ræða eftirlit með veitingahúsum og gististöðum. Þar voru 66 brot skráð í málaskrá lögreglunnar á tímabilinu, 38 hegningarlagabrot og 28 sérrefsilagabrot. Þá kemur fram að af þeim brotum voru 12 kynferðisafbrot skráð, þar af 11 vegna kaupa á vændi sem, eins og þingheimur þekkir, er refsivert samkvæmt 206. gr. almennra hegningarlaga.

Þeir staðir sem hér eru til umræðu eru leyfisskyldir á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Samkvæmt 21. gr. þeirra laga hafa lögreglustjórar eftirlit með framkvæmd þeirra, þar á meðal eftirlit með því að leyfishafi uppfylli skilyrði fyrir rekstrarleyfi og að þeim skilyrðum sem leyfið er bundið við sé fylgt. Í lögunum er enn fremur fjallað um viðurlög vegna brota á lögunum og þau tilvik þar sem lögreglustjórar geta stöðvað leyfisskylda starfsemi, m.a. þegar leyfisskyld starfsemi fer út fyrir mörk og skilmála útgefins rekstrarleyfis. Þá má bæta því við að samkvæmt lögreglulögum er lögreglu heimilt, í þágu allsherjarreglu, að fyrirskipa stöðvun á starfsemi, m.a. í því skyni að afstýra brotum eða stöðva þau. Þess ber að geta að samkvæmt lögunum er veitingastöðum hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti heimilt að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum.

Á lögreglunni hvíla því ríkar eftirlitsskyldur með starfsemi allra staða, samkvæmt fyrrgreindum lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá er það almennt hlutverk lögreglu að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgara og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Önnur stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna er atvinnufrelsi sem felur það í sér að öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir þess. Afskipti og takmörkun ríkisvaldsins á atvinnustarfsemi borgara verður því að byggja á skýrum lagaheimildum sem aftur mega ekki fara í andstöðu við þessi stjórnarskrárvörðu réttindi borgaranna. Það er sem sagt grundvallaratriði að borgararnir geti stundað þá atvinnu sem þeir kjósa innan marka laga. Í þeirri starfsemi sem og annarri gilda þessi grundvallaratriði. Sé um brot á lögum að ræða er að sjálfsögðu tekið á því.

Um þessar mundir, virðulegi forseti, er mikil vitundarvakning innan samfélagsins um vændi og mansal, en á vegum ráðuneytisins er unnið eftir aðgerðaáætlun gegn mansali. Í því samhengi ber að geta þess að hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur aukin áhersla verið lögð á rannsóknir brota er varða mansal og vændi. Rannsóknir á mansali og vændi hafa verið settar í forgang og sérstakur lögreglufulltrúi embættisins gerður ábyrgur fyrir rannsóknum á umræddum brotum. Lögreglan hefur einnig tekið markvissan þátt í samstarfi við verkalýðsfélög, vinnueftirlit og skattyfirvöld varðandi vinnustaðaskoðanir og eftirlit. Þá hafa verið gerðar breytingar á lögreglukerfi þannig að hægt sé að skrá möguleg mansalsmál betur. Allt þetta hefur heilmikla þýðingu.

Hæstv. forseti. Meginatriðið er þó alltaf þetta: Þessi starfsemi sem og önnur starfsemi af þessum toga lýtur lögum og er leyfisskyld. Innan veggja þessara staða sem og annarra þarf að fara að lögum. Sé brotalöm á því er á því tekið.