145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[16:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Ekki var það ætlan þess sem hér stendur að setja eitthvert Coca Cola-merki eða einkarétt á áhuga á mansali og hengja við sjálfan sig.

Ég veit af þessu sérstaka mansalsteymi sem lögreglan í Reykjavík hefur komið á fót og það er mjög mikið fagnaðarefni. Það er hins vegar eitt sem mér finnst skipta máli þegar við ræðum þessa starfsemi, það að þrátt fyrir að atvinnufrelsi ríki getum við ekki gefið afslátt af því að einhver starfsemi eigi sér stað á Íslandi ef rökstuddur grunur leikur á um að þar sé um skipulagða glæpastarfsemi að ræða eða að þar séu framin afbrot sem eiga ekkert skylt við það sem við köllum atvinnu í daglegu máli. Þess vegna tel ég að ef vafi leikur á um starfsemi klúbba af því tagi sem við ræðum hérna núna liggi vafinn hjá þeim sem eru jafnvel fórnarlömb mansals, eru höfð að dægradvöl fyrir einhverja sem geta keypt sér aðgang að líkama annarra sem ég lít ekki á sem eðlilega kynlífsathöfn ef við tölum um það. Ég tel að við eigum með öllum ráðum að koma í veg fyrir að þessi starfsemi sé rekin á Íslandi. Þurfi að breyta lögum til að svo verði, vegna þess að það virðist liggja þannig í því að erfitt sé að færa sönnur og dæma í brotum sem þarna fara fram, verðum við einfaldlega að skerpa á lögum þannig að ekki fari á milli mála að starfsemi eins og þessi sé ólögleg (Forseti hringir.) og óþolandi.