145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

handtaka og afhending manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar.

617. mál
[16:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við ræðum frumvarp um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Ég tel ástæðu til tortryggni gagnvart þessu máli. Hingað til hefur verið fortakslaust bann við framsali íslenskra ríkisborgara til annarra ríkja en Norðurlandanna. Í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“

Ég skil að við þurfum að taka þátt í alþjóðastarfi til að geta unnið saman sem mannkyn gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hryðjuverkastarfsemi og öðrum alvarlegum glæpum. Mér finnst hins vegar að við þurfum að standa betur í lappirnar í alþjóðlegri mannréttindavernd og í það minnsta nýta allt það svigrúm sem við getum til að hafa okkar eigin lög mannréttindavæn. Í tilskipuninni er ákveðinn sveigjanleiki á ákveðnum sviðum sem mér sýnist að við hefðum getað nýtt betur.

Í 7. gr. segir að ef handtökuskipun er gefin út vegna fleiri en eins brots skuli afhenda mann þótt einungis sé skilyrði til staðar í einu tilviki. Mér virðist tilskipunin í þessu tilviki og fleirum bjóða upp á að grun um brot verði smurt á menn til að fá þá afhenta á fölskum forsendum.

Samkvæmt 6. gr. handtökuskipunar er óheimilt að synja um afhendingu manna á grundvelli þess að um stjórnmálaafbrot sé að ræða. Samkvæmt tilskipuninni er ríkjum heimilt að gefa út yfirlýsingu um að þessi regla gildi eingöngu vegna hryðjuverkabrota. Mér sýnist brugðist við þessu í 11. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að heimilt sé að synja um afhendingu. Þetta er mjög mikilvægt en það þarf að vera tryggt að menn verði ekki framseldir á grundvelli skoðana sinna eða tjáningar þeirra.

Í lokamálsgrein 9. gr. kemur fram að synja skuli um afhendingu manns ef afhendingin er í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki er skýrt nánar, hvorki í lagatexta né greinargerð, hvað gæti fallið þarna undir og æskilegt hefði verið að gera nánar grein fyrir þessu enda er ekki alltaf skýrt hvað kunni að falla þarna undir. Til dæmis hefur Mannréttindadómstóll Evrópu slegið því föstu að ríki beri ábyrgð á því ef það framselur einstakling til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þetta er allt hægt að túlka út og suður, forseti.

Í 16. gr. er allt of opinn gluggi þar sem heimilt er að samþykkja beiðni um a) fullnustu refsingar fyrir annað brot en lá til grundvallar afhendingu, Julian Assange gæti þurft að afplána refsingu fyrir njósnir þótt hann yrði afhentur á grundvelli nauðgunar sem gæti t.d. þýtt dauðadóm í Bandaríkjunum, b) áframsendingu fólks til annars ríkis innan Norðurlanda og ESB, c) áframsendingu til ríkja utan ESB enda sé hann ekki íslenskur ríkisborgari.

Þarna eru í raun og veru allt of víðtækar leiðir til þess að framselja fólk frá Íslandi sem síðan yrði framselt til annarra ríkja þar sem m.a. dauðadómur er við lýði eða aðrar ómannúðlegar og vanvirðandi aðferðir. Þetta þýðir að ef við afhendum Bretlandi mann á grundvelli þessarar tilskipunar geta Bretar ákveðið að framselja hann til Bandaríkjanna eða annarra ríkja utan Evrópusambandsins. Athuga þarf sérstaklega að hér er um heimildarákvæði tilskipunarinnar að ræða sem mér sýnist ekki hafa verið þörf á að setja inn í frumvarpið.

Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er vísað í gagnrýni Fair Trials International á evrópsku handtökuskipunina. Samtökin hafa bent á alvarlega hættu á óréttlátri málsmeðferð í framsalsafhendingarmálum í aðildarríkjum Evrópusambandsins, að evrópsk handtökuskipun hafi verið gefin út mörgum árum eftir að meint brot var framið, að engin skilvirk leið sé fær til að fella evrópska handtökuskipun niður, ekki einu sinni eftir að framsali hafi verið synjað. Fólk hefur verið sent til annarra aðildarríkja á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar til að sitja af sér fangelsisrefsingu á grundvelli réttarhalda þar sem óréttlátri málsmeðferð var beitt. Stundum þurfa einstaklingar sem afhentir hafa verið á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar að eyða mánuðum eða jafnvel árum í varðhaldi áður en þeir koma fyrir rétt til að sanna sakleysi sitt.

Forseti. Í þessu máli öllu eru of margar gryfjur til að detta í og ég mun því greiða atkvæði gegn málinu þegar það kemur til kasta þingsins til samþykktar eða synjunar.