145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á því að menn hafi ýmsar skoðanir á þessum málum bara almennt, hvaða stuðning ákveðnar atvinnugreinar eigi að fá frá ríkinu. Þessi umræða átti sér stað þegar þessi mál voru endurskoðuð á síðasta kjörtímabili og svo aftur núna.

Ég held í ljósi reynslunnar að það hafi sýnt sig að það sem við leggjum af mörkum til stuðnings þessari grein innan lands skilar sér margfalt aftur inn í samfélagið, bæði í aukinni veltu og líka í kynningu landsins með jákvæðum formerkjum, svo að í raun séu allir að vinna þegar upp er staðið á þessu. Við þurfum eðlilega að endurskoða þetta aftur árið 2021 eins og hér hefur verið nefnt og meta hvort áfram sé þörf á þessum stuðningi og hvort hann skili okkur eins og verið hefur þeim ágóða sem við sjáum í dag.

Þetta hefur skapað atvinnu vítt og breitt um landið sem mér finnst líka skipta máli. Þetta er ekki bara höfuðborgarmiðað heldur er verið að efla þessa grein og innlenda framleiðslu og þetta hefur styrkt sérhæfingu í kvikmyndaiðnaði hjá okkar fólki hér heima; hefur sýnt fram á að við höfum fram að tefla mjög hæfum og færum einstaklingum í kvikmyndagerð sem oftar en ekki geta gengið í ótal störf, sem er kannski ekki mjög þekkt erlendis. Þess vegna hefur verið mjög góð kynning á okkar kvikmyndagerðarfólki út um allan heim.

Þetta frumvarp hefur valdið því, held ég, að svo er.