145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir málið. Ég vildi bara aðeins koma inn á þessa umræðu um starfsþróunarsetrið og fjölda starfsmanna, hvernig það er hugsað. Nú er það undir embætti ríkislögreglustjóra sem hefur hingað til verið í mjög miklu samstarfi við Lögregluskólann varðandi þjálfunarmál og fræðslu. Fjöldi starfsmanna ríkislögreglustjóra hefur komið að kennslu fjölda námskeiða hjá Lögregluskólanum. Þar eru viss samlegðaráhrif sem nást fram með því að hafa mennta- og starfsþróunarsetrið staðsett þar innan húss.

Mennta- og starfsþróunarsetrinu er líka ætlað það hlutverk að finna út hvaða nám lögregluna vantar. Ég býst við því, og það kom fram í vinnunni og var hugmyndin, að það nám færi að mestu leyti fram annars staðar, t.d. innan símenntunarstöðva háskólanna, inni á öðrum stofnunum eins og Fangelsismálastofnun og annað slíkt eða stjórnunarnám. Eftir stuttlega athugun býst ég við því að lögreglan þyrfti í upphafi helst að styrkja sig hvað varðar stjórnunarþáttinn. Þá mundi mennta- og starfsþróunarsetrið leita samstarfs við einhverja menntastofnun um að bjóða upp á slíkt nám fyrir lögreglumenn án þess að vera með starfsemina sjálft innan húss hjá sér. Það yrði á ábyrgð setursins að koma náminu á legg fyrir starfsmenn lögreglu sem geta þá sótt í það og styrkt sig í starfi og annað slíkt. Þannig er hugsunin. Þess vegna er kannski ekki gert ráð fyrir fleiri starfsmönnum í upphafi.