145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankanna.

[10:33]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra út af umræðu sem hefur verið áberandi og hávær síðustu daga í kjölfar orða umboðsmanns Alþingis fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um nýjar upplýsingar varðandi einkavæðingu bankanna, þá sérstaklega þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser að þeim málum. Það hefur verið rætt, og ýmsir fyrrverandi ráðherrar og aðrir sem hafa komið að hafa lýst yfir áhuga á því, að þessi mál verði rannsökuð og farið verði í það sem fyrst. Mig langaði til að inna hæstv. forsætisráðherra eftir afstöðu hans til málsins og hvort hann taki ekki undir að það ríði á að til slíkrar rannsóknar verði boðað til að gera það sem í okkar valdi stendur til að styrkja trú á íslenskt fjármálakerfi og íslenskt stjórnkerfi.