145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

Mývatn og Jökulsárlón.

[10:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það stendur þannig á spori að allnokkur stór mál eru til umfjöllunar í samfélagsumræðunni sem varða verksvið hæstv. umhverfisráðherra en var kannski ekki í öllum tilvikum hægt að sjá fyrir.

Stundum er það þó svo að við höfum séð blikur á lofti árum saman eins og gildir um Mývatn og álag á vatnið, bæði af mannavöldum og af öðrum ástæðum. Við sjáum þar mjög alvarleg merki í lífríkinu og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur tekið undir þær áhyggjur og raunar sagst mundu vilja berjast fyrir því að fá fjármagn til þess að styðja þetta litla sveitarfélag til aðgerða að því er varðar fráveitumál.

Annað mál lýtur að jarðarkaupum, mögulegum jarðarkaupum, þ.e. Fellsjörðinni og Jökulsárlóni. Þar ber svo við að jörðin er til sölu og samkvæmt nýsamþykktum náttúruverndarlögum gildir forkaupsréttur á náttúruverndarsvæðum. Þarna er um að ræða svæði sem sannarlega fellur undir þá grein. Umhverfisráðherra hefur sömuleiðis lýst því yfir að rétt sé að freista þess að ríkið komi að þessu með einhverju móti, þ.e. almannavaldið, og þá jafnvel með það að leiðarljósi eða markmiði að svæðið falli undir Vatnajökulsþjóðgarð eins og eðlilegt er.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hún hefur áður lýst áhuga sínum á báðum þessum málum til að beita afli sínu sem málsvari málaflokksins til að fá fjármagn í þessi verkefni, hvernig staðan er að því er varðar þau verkefni og vilja hennar í þá veru að fá peninga í þessi mál.