145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór yfir áðan er fyrirhugaður fundur í Vísinda- og tækniráði sem verður sá fyrsti sem ég stýri. Ég á von á formanni og varaformanni til mín næstu daga til þess að fara yfir þessi mál og mun glaður geta veitt skýrari og betri upplýsingar og svör við spurningum hv. þingmanns og skal koma þeim til þingmannsins um einstaka þætti og eins við þeim spurningum sem var beint til mín um hlutföllin, hvernig þau eru nákvæmlega, vegna þess að ég er ekki með þau í kollinum svo það sé nú sagt.

Þótt svarið hafi verið býsna langt og ítarlegt þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að stundum eru stutt svör skýrari en langur texti, en þarna var verið að reyna að koma til móts við spurningarnar sem settar voru fram og útskýra málið þar sem það er býsna umfangsmikið. En ég vil að lokum taka undir með hv. þingmanni um gríðarlegt mikilvægi þess að við setjum aukna fjármuni í rannsóknir, í nýsköpun og skjótum þannig styrkari stoðum undir (Forseti hringir.) samfélagið, atvinnulífið og framþróun samfélags okkar.