145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðir til að styrkja byggð í Grímsey.

[11:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem er viðkomandi máli mjög vel kunnugur sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og byggðamálaráðherra, hvað tefji það að tillögur nefnda og síðan samþykkt ríkisstjórnar um aðgerðir til að styrkja forsendur byggðar í Grímsey komi til framkvæmda. Forsagan er í örstuttu máli sú að að frumkvæði Akureyrarbæjar var skipuð nefnd með aðilum frá bænum, Byggðastofnun, viðskiptabanka stærstu útgerðanna og fulltrúum þingmannahóps Norðausturkjördæmis sem í voru undirritaður og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Sú nefnd skilaði af sér fyrir rétt um ári síðan tillögum um í aðalatriðum fjórþættar aðgerðir, skýrt afmörkuðum tillögum. Það var byggðafestukvóti upp á 400 tonn, það voru bættar samgöngur og einkum að fjölga ferðum Grímseyjarferjunnar Sæfara, það voru aðgerðir í sambandi við kyndingarkostnað og orkumál eyjarinnar og í fjórða lagi ýmsar almennar byggðaaðgerðir, efling ferðaþjónustu og stuðningur af ýmsu tagi eftir atvikum undir formerkjum verkefnisins Brothættar byggðir.

Nefnd embættismanna vann svo að vísu með þetta í allmarga mánuði og tíminn leið hratt en tók í aðalatriðum upp tillögur upphaflegu Grímseyjarnefndarinnar, gerðir þær að sínum, lagði þær til við ríkisstjórn og ríkisstjórn samþykkti þær tillögur síðla hausts í fyrra. Nú er staðan sú að í aðalatriðum eru komnar til framkvæmda þær aðgerðir sem tengjast byggðafestukvótanum en ekkert bólar á bættum samgöngum. Þess sér hvergi stað í samgönguáætlun eða annars staðar svo ég viti. Nú er það ekki stórmál að fjölga ferðum Sæfara, eins og óskir heimamanna og atvinnulífsins eru um, í fjórar til fimm ferðir í viku og laga áætlunina að þörfum atvinnulífsins og heimamanna þannig t.d. að síðasta ferð fyrir helgi, á föstudögum, fari ekki í land fyrr en kl. 16 þannig að heimamenn komi aflanum á markað fyrir helgi o.s.frv.

Þetta snýst ekki um háar fjárhæðir. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra, erindið var stílað á hann í upphafi enda varðaði það mörg (Forseti hringir.) ráðuneyti: Er ekki alveg á hreinu að ríkisstjórnin mun hrinda þessum tillögum í framkvæmd, þar á meðal að bæta samgöngurnar strax á þessu vori?