145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðir til að styrkja byggð í Grímsey.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann fór ágætlega yfir langstærstan hluta málsins. Það sem hann sleppti og er ekki bein aðkoma ríkisins var að fyrirtækin þarna voru einnig í samtali við sína banka, skulum við segja, til þess að fá ákveðna úrlausn sem var sú forsenda sem ríkið gat gert með aðgerðum sínum, að bankinn gæti þá komið skýrar til móts við þessa aðila. Ég veit að það tók býsna langan tíma. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er búið að ganga frá byggðafestukvótanum og umgjörðinni með verkefnisstjóra og öllu því sem hjálpar til við þessa vinnu. Það hefur staðið á breytingum á siglingum ferjunnar, á seinkuninni á tímanum á föstudegi, og fyrir mjög stuttu síðan bað ég um upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu sem vörðuðu samskipti milli þeirra sem reka ferjuna og ráðuneytisins, um að fá skýrari svör. Það virtist óljóst hvort fyrirhugað seinkun, sem var til kl. 18 á daginn ef ég man rétt, dygði til að tryggja að sá afli sem yrði þá landað kæmist um borð eða kæmist í flutningabíla. Ég held að það geti staðið eitthvað á því þarna en það var verið að vinna að því. Það er rétt að þar er ekki verið að tefla um mjög háar fjárhæðir. Ég býst við að gengið verði frá því á næstu dögum þegar það skýrist.

Varðandi enn fleiri (Forseti hringir.) siglingaferðir á milli staðanna komu þessar tillögur eftir að fjárlögin voru samþykkt og menn hafa leitað leiða til að standa við það loforð.