145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðir til að styrkja byggð í Grímsey.

[11:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Mér þykir gott að heyra að hann hefur verið að fylgjast með málinu varðandi þátt viðskiptabankanna, viðskiptabankans sem svo vill til að var sami banki í tilviki þriggja stærstu útgerðanna. Þá var hann auðvitað með í ferlinu, var með í upphaflegu nefndinni og alveg ljóst að hlutur hans þurfti að ganga eftir. Það hefur gerst að mínu mati með alveg ásættanlegum hætti, a.m.k. þannig að búið er að ganga frá málum í tveimur tilvikum eða þremur og/eða tillögur liggja á borðinu.

Varðandi áætlanir Sæfara er það hitt atriðið sem þarf að koma til framkvæmda strax, síðan er ljóst að stefnumótun varðandi framtíðar orkumála, fyrirkomulag í eyjunni og aðrar slíkar aðgerðir taka meiri tíma, það viðurkenna allir. En það er gríðarlega mikilvægt að gera þessa tilraun núna samhliða og það er ekki síst yfir sumarið vegna þess að þá nýtast Grímseyingum betur möguleikar til strandveiða og fleiri hluta. Þetta snýst um óverulegar fjárhæðir, eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega, og annað eins hefur nú ríkisstjórn gert (Forseti hringir.) þegar svo ber undir til að koma sínum eigin tillögum (Forseti hringir.) til framkvæmda, að samþykkja (Forseti hringir.) að óska eftir aukafjárheimild og leggja þannig af stað.