145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar. Hér er lagt til að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20% í 25% og horft til samkeppnissjónarmiða Íslands gagnvart öðrum löndum, sem ásókn hefur verið í að fara til líka og hafa boðið upp á slíkt; ég nefni Noreg og Írland sem dæmi. Ég tel þetta vera mjög gott mál fyrir uppbyggingu kvikmyndaiðnaðar hér á landi. Þetta er góð landkynning og hefur skilað sér vel í tekjum til íslensks samfélags heilt yfir vegna aukinnar veltu og umsvifa þessa iðnaðar hér á landi. Ég tel að þetta hafi verið mjög góð landkynning og muni verða það áfram, en við þurfum að halda vel utan um þetta, sjá til þess að gengið sé vel um náttúru landsins og að farið sé að lögum og reglum í sambandi við vinnumarkaðsmál hvað snertir þá sem vinna í þessari grein.