145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

lyfjalög og lækningatæki.

473. mál
[11:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Megintilgangurinn með því frumvarpi sem við göngum hér til atkvæða um er að veita Lyfjastofnun heimild til gjaldtöku vegna þjónustu sem stofnuninni ber að veita lögum samkvæmt en hefur hingað til ekki haft heimild til þess að taka gjald fyrir. Ég styð málið en skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Það er vegna þess að ég tel mjög mikilvægt, og vil árétta það hér, að Landspítalanum verði tryggð fjárveiting á fjárlögum vegna þeirrar aukningar á útgjöldum spítalans sem er fyrirséð að verði vegna þessa frumvarps. Þó svo að ég styðji málið þá tel ég mjög brýnt að halda því til haga að Landspítalinn verður að fá aukna fjárveitingu ef til þess kemur að hann muni bera meiri útgjöld.