145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál, ég er sammála því að þetta er mikil réttarbót. Það er hins vegar þess virði að nefna það að við meðferðina á þessu máli komu fram mjög mörg sjónarmið víðsvegar í samfélaginu um ýmsar athugasemdir er varða réttarfarskerfið og dómskerfið á Íslandi. Mér þykir einsýnt að þeirri umræðu sé ekki lokið. Það hefur líka komið fram, meðal annars í nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar, að frumvarp eigi eftir að koma fram um skipun dómara þannig að það er ýmislegt sem á eftir að ræða, og þess virði að halda því til haga.

Ég vil nefna þetta sérstaklega vegna þess að borist hafa umfangsmiklar ábendingar sem hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið tekið tillit til. En þá er mikilvægt að hafa í huga að það tekur lengri tíma að fara í einhvers konar heildarendurskoðun á dómskerfinu, enda ekki markmið frumvarpsins að laga allt sem nokkrum manni gæti hugsanlega þótt vera að kerfinu. Það er því mikilvægt, finnst mér, að halda því til haga að dómskerfið okkar er ekki fullkomið, það þarf að skoða það áfram í framtíðinni.