145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa starfað í dómskerfinu sem aðstoðarmaður dómara í nokkur ár varð mér ljóst að ýmsu er ábótavant þar eins og annars staðar. Ég vil sérstaklega fagna því að við séum að ná þeim áfanga að milliliðalaus sönnunarfærsla verði á tveimur dómstigum. Þetta hefur staðið dómskerfinu fyrir þrifum og þetta hefur verið lengi í umræðunni meðal dómara og lögmanna. Það er sérlega ánægjulegt að fá að taka þátt í að afgreiða það. Ég fagna því líka að allsherjar- og menntamálanefnd telur efni til þess að halda áfram umræðunni um dómskerfið á Íslandi vegna þess að ég held að til að mynda megi bæta aðbúnað dómara og starfsskilyrði ýmis og tryggja að þeir verði 100% sjálfstæðir í sínum störfum en það hafa verið umræður um að þeir séu það kannski ekki í öllum tilvikum. Sú umræða hjálpar hvorki dómskerfinu, Alþingi né (Forseti hringir.) öðrum stofnunum þessa lands. Ég fagna því að þetta sé að klárast og þakka allsherjar- og menntamálanefnd sérstaklega og innanríkisráðherra fyrir að klára þetta mál svona myndarlega.