145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum þetta mál. Ég vil líka þakka kollegum mínum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir gott samstarf. Ég tel mikilvægt að við sammæltumst um að vera á einu nefndaráliti í þessu máli og sýna samstöðu enda kom í ljós við yfirferð nefndarinnar að við deildum meira og minna sömu efasemdum um málið, sem eru reifaðar í nefndarálitinu.

Málið er í grunninn mjög gott og gerir vonandi sitt til að bæta dómstólana. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvægt það er í samfélaginu að dómstólar séu góðir. Við yfirferð nefndarinnar var það auðvitað umhugsunarefni hve skýrar gagnrýnisraddir komu fram á dómstólana og hve mikil ólund ríkir í garð dómstólanna á Íslandi. Það er kannski ekkert undrunarefni vegna þess að gríðarlegt álag hefur verið á dómstólana undanfarið. Þetta frumvarp miðar að því að reyna að dreifa því álagi, meðal annars. Það eru stór viðfangsefni fram undan varðandi dómstólana, eins og að reyna að koma því í skikkanlegt horf (Forseti hringir.) hvernig dómarar eru skipaðir, hvernig aðhald á að vera með dómstólunum í framtíðinni og eins held ég að það þurfi að ræða óheyrilegan málskostnað þeirra sem leita til dómstólanna og margt fleira. Þannig að þetta er ekki búið.