145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

afbrigði um dagskrármál.

[11:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel að við þingmenn eigum rétt á því að fá skýringar á því af hverju ríkisstjórn eða ráðherra óskar eftir því að setja þetta stóra mál á dagskrá og fá til þess afbrigði svo seint sem raun ber vitni. Hér er um mjög stórt og mjög umdeilt mál að ræða. Maður veltir fyrir sér hver tilgangur ríkisstjórnarinnar sé með því að reyna að troða því hér inn í vinnu þingsins á allra síðustu starfsdögum þessa þings, að minnsta kosti á þessu vori.

Það skiptir máli að vita það bæði í þessari atkvæðagreiðslu og áður en umræða um málið hefst, verði afbrigðin samþykkt, hvort hér er einungis verið að leggja málið fram til einhvers konar kynningar eða hugsanlega til þess að koma því til umsagna fyrir sumarið eða hvort ríkisstjórninni dettur virkilega í hug að stórmál af þessu tagi fái einhvers konar afgreiðslu hér á örfáum sólarhringum. Ég vildi því gjarnan heyra hvaða áform liggja þarna að baki að setja þetta stóra mál inn, sem er nokkuð sér á báti á þessum afbrigðalista að ég tel, með þessum hætti hér og nú.