145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[11:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er svo að með þessum samningi, tollasamningi við Evrópusambandið, og þeim búvörusamningi sem var til umræðu á dögunum að þegar saman er lagt stendur landbúnaðurinn frammi fyrir einhverjum mestu breytingum á starfsumhverfi sínu sem hann hefur lengi gert. Því miður finnst mér að í hvorugu tilvikinu hafi tekist vel til. Ég hef miklar áhyggjur af mörgu sem er að teiknast upp, fyrir hönd íslensks landbúnaðar og íslenskrar matvælaframleiðslu á komandi árum.

Þessi tollasamningur dúkkaði allt í einu upp og það var skrifað undir hann án nokkurs samráðs við landbúnaðinn á síðasta ári. Auðvitað komu hörð mótmæli í kjölfarið við þeim vinnubrögðum, undarleg vinnubrögð þar sem tveir ráðherrar Framsóknarflokksins í ólíkum ráðuneytum véla um hlutina.

Hér er ekki bara um að ræða hvaða áhrif geta orðið á einstakar kjötgreinar beint, eins og svínaræktina, alifuglaframleiðsluna eða nautakjötsframleiðsluna, heldur er um að ræða eina samofna heild þar sem er íslensk landbúnaðarframleiðsla og íslensk kjötvinnsla og matvælaiðnaður og úrvinnsla og þjónusta og sala á afurðum og aðföngum til greinarinnar, því að allt hefur þetta áhrif hvað á annað. Þannig má sem dæmi taka slátrun og úrvinnslu í kjötgreinunum. Þar er svínakjötsframleiðslan og ekki síst framleiðsla fjölskyldubúa sem eru dreifð um landið ákaflega mikilvæg því að hún er undirstaðan undir heilsársstarfsemi og mjög mikilvægt hráefni inn í kjötvinnsluna, þannig að á bak við liggja hundruð starfa og mikil umsvif.

Sama má segja um fóðurverð og aðföng. Svínabúin eru mjög stór í kaupum á fóðri og standa þar af leiðandi að verulegu leyti undir dreifingarkostnaði og birgðahaldi á fóðri úti um svæði landsins. Detti þau upp af er það stórt áfall fyrir hinar greinarnar sem þurfa þá væntanlega að kaupa aðföng sín dýrara verði og þannig mætti áfram telja.

Svínabændur, og alifuglabændur reyndar líka, taka núna á sig milljarða kostnað við innleiðingu á nýjum aðbúnaðarreglum og varðandi aukna dýravelferð, sem að sjálfsögðu er vel og við viljum að sé gert og bændur vilja sjálfir að sé gert. En þeir fara fram á að fá einhvern sambærilegan stuðning við þetta og aðilar í samkeppnislöndum. Ég tala nú ekki um ef einmitt á samtímis að henda þeim inn í aukna samkeppni. En því er ekki fyrir að fara. Sá stuðningur að nafninu til sem menn hafa þóst vera tilbúnir í hér er brot af því sem menn hafa aðgang að í þeim löndum sem væntanlega munu nýta sér tollkvótana.

Þegar það svo bætist við að á sama tíma er sótt að heilbrigðis- og hollustureglum Íslands og við getum átt fyrir höndum harðan slag um það hvort við megum áfram banna hingað innflutning á hráu kjöti og hrámeti í þágu þess að verja búfjártegundir okkar og hollustu og heilnæmi framleiðslunnar. Sú stefna í tollamálum sem birtist hér í annað sinn, það er merkilegt að þetta gerist alltaf þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru saman í stjórn, þá steðja svona ógnir að landbúnaðinum, vinnur auðvitað gegn þeirri þróun íslensks landbúnaðar sem við hefðum viljað sjá, að við hlúðum að fjölbreyttri framleiðslu, að við styrktum fjölskyldueiningarnar og spornuðum gegn verksmiðjuvæðingu landbúnaðarins, að við styddum landbúnaðinn í áframhaldandi þróun í átt til þess að nota sem minnst og helst engin lyf, að við settum okkur metnaðarfull markmið af því tagi sem hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði um á dögunum, að við stefndum að því að innan ekki margra ára væri íslenskur landbúnaður algerlega laus við notkun erfðabreyttra efna í fóður og annað því um líkt. Um slíkt væri gaman að tala, ef einhver metnaður og framtíðarsýn af því tagi væri í gangi. Það er einmitt eitt af sérkennum íslensks landbúnaðar hvað hann er laus við sýklalyfjanotkun og stendur vel að vígi gagnvart því sem eftirspurn er orðin eftir og vonandi þróunin verður í átt til.

Ég hef áður gert athugasemdir við framsetningu í greinargerð um aðdraganda málsins. Ég verð að bæta við um það mál, því að ég þekki aðeins til sögunnar. Þannig var að ég átti fundi með öllum helstu forustumönnum Evrópusambandsins á þessu sviði í ársbyrjun 2012, með sjávarútvegsráðherrum og landbúnarráðherrum, stækkunarstjóranum og hvað þeir nú hétu allir saman. Á einum af þeim fundum bar þetta mál á góma, sem hafði mallað í kerfinu frá 2011, óskir um að Ísland fengi rýmkaðar útflutningsheimildir hvað tolla snertir fyrir lambakjöt og skyr. Og hver voru viðbrögð Evrópusambandsforustunnar á þeim fundum? Jú, þau voru þau ein að þeir á móti hefðu áhuga á því að Ísland tæki upp upprunavottunina og þær reglur sem þar fylgja með, sem okkur fannst hvort sem er skynsamlegt og sáum engin vandamál við varðandi vernd afurðarheita sem vísa til uppruna.

Ég vona að menn taki orð mín gild í þessum efnum. Svona var þetta. Þess vegna veit ég ekki hverjar eru innstæður fyrir því að fullyrða að það hafi strax legið ljóst fyrir af hálfu Evrópusambandsins að þeir mundu krefjast fullrar gagnkvæmni í opnun tollkvóta, því að svona var þetta á fundunum. Það eru örugglega til minnisnótur frá þeim fundum, ef ekki nú þegar í utanríkisráðuneytinu, sem ég geri ráð fyrir því að embættismenn þess ráðuneytis voru með mér í för, eða a.m.k. þeir útsendu í Brussel, þá er hægt að útvega þær hjá landbúnaðarráðuneytinu eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þetta var svona. Við fórum heim og settum það í gang sem talað var um af hálfu Evrópusambandsins, að við tækjum upp upprunareglurnar og umgjörðina um vernd afurðarheita og það hefur Alþingi þegar gert. Við vorum búin að ná þeim lið.

Svo dúkka hér upp samningar allt í einu á árinu 2015 sem koma manni mjög á óvart og stórauka innflutningsheimildir Evrópusambandsins á vörum sem hörð samkeppni er þegar orðin um, eins og verslunin hefur t.d. spilað með þá kvóta sem í boði eru í dag í svínakjöti. Ástæðan fyrir því að innflutningurinn hefur aukist jafn hratt og raun ber vitni í svínakjöti, alifuglakjöti og nautakjöti er ekki aðeins sú að þær vörur hafi skort á Íslandi heldur er hún líka sú að tollverndin hefur lekið. Hún gerir það m.a. með því að menn nota tollfrjálsu kvótana til að flytja inn verðmæta vöðva, verðmætustu vöðvana, og fylla þannig upp í magnið, koma svo og segja: Nei, nú vantar síður. Þá verðum við að fá þær í viðbót. Það verður að opna innflutning á þeim í viðbót.

Ég tel að því miður verði að segja eins og er að ráðuneytin hafa ekki staðið sig nógu vel í stykkinu í þeim efnum. Og að skella svo inn einhliða viðbót í svona stóru magni þar sem innflutningurinn er þegar kominn í 20–30% af markaðnum, það er meira en að segja það. Eru menn alveg tilbúnir í að þess vegna helmingist þessi framleiðsla, ef ekki jafnvel leggst alveg af?

Ég held að veruleikinn sé sá að fjölskyldubúin í svínarækt munu ekki ráða við þetta. Þannig meta þeir stöðuna sjálfir og ætli aðrir viti betur um það sem að þeim snýr? Ef þeir eiga að taka upp aðbúnaðarreglugerðirnar og fara í milljarða kostnað vegna þess án nokkurs frekari stuðnings en enn hefur a.m.k. verið í boði þá meta þeir það svo að tilgangslaust sé að reyna það og munu frekar óska eftir því að stuðningur ríkisins fari — í hvað? Í úreldingarbætur. Þannig að þeir geti hætt frekar en að hella sér út í óvissuna. Er það þetta sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vill? Er hún til í það? Að sitja kannski uppi með þá niðurstöðu að hálfar og heilar greinar í landbúnaðinum biðji þá frekar um að fá að hætta? Það væri aldeilis minnisvarði sem menn hefðu haft gaman af því að reisa sér, er það ekki?

Ég tel að hér vanti mjög mikið upp á að nægjanlega vel sé um málin búið. Hvers vegna í ósköpunum nálgast menn þá ekki með svipuðum hætti og þegar grænmetissamningurinn var gerður á sínum tíma, að tollverndin, að því marki sem hún hverfur, verði leyst af hólmi með beinum stuðningi? Af hverju ekki? Nú hæla allir því hvað vel tókst til þar, þegar í samningunum 2007 voru felldir niður tollar á grænmetið. En á móti kom stuðnings- og aðlögunarsamningur sem enn er í gildi upp á yfir hálfan milljarð króna til garðyrkjunnar. Ef eitthvað svoleiðis væri hér í kortunum, að svínabændur og alifuglabændur fengju myndarlegan stuðning við að mæta kostnaðinum við aðbúnaðarreglugerðirnar og síðan einhvers konar samning um stuðning sem leysti þá af hólmi hina horfnu tollvernd, þá er einhver meðvitund í þessu. Að mínu mati er það alger tímaskekkja að veikja undirstöður sjálfbærrar matvælaframleiðslu á Íslandi. Þjóðin framleiðir rétt tæplega helming fæðuþarfar sinnar sjálf. Um allan heim keppast menn við að efla fæðuöryggi og vera sem mest sjálfum sér nógir. Þar koma umhverfismálin líka inn í vegna þess að auðvitað er orðið viðurkennt að einhvers konar mónókúltúr-þróun í þessum efnum og flutningur á matvælum heimshorna á milli með tilheyrandi mengun og neikvæðum áhrifum á vistspori er ekki sú framtíð sem við eigum að stefna að.

Hér er að mörgu að hyggja, herra forseti.