145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér loksins tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, samnings sem ráðherrar Framsóknarflokksins gerðu við Evrópusambandið. Þegar samningurinn var gerður var sagt að væntanlegur búvörusamningur, sem nú er kominn fram, yrði að taka töluvert mikið tillit til hans.

Þetta mál gengur eðli málsins samkvæmt til utanríkismálanefndar, en ég tel að atvinnuveganefnd þurfi líka að fá málið til umsagnar og fara yfir það. Í umræðu og vinnu nefndarinnar við nýjan búvörusamning tengdist mjög margt þessum tollasamningi og á margvíslegan hátt. Ég veit ekki alveg hvar ég ætti að byrja í þessu sambandi á þeim tíu mínútum sem okkur eru ætlaðar til að ræða þingsályktunartillögur til fyrri umræðu. Það er rétt að hafa í huga að hér er verið að opna á meiri innflutning á ákveðnum tegundum af kjötvörum, ostum og öðru slíku.

Jafnframt er rétt að hafa í huga hvernig ástandið hefur verið undanfarin ár. Hvort sem það er út af stórauknum fjölda ferðamanna eða neyslubreytingum landsmanna, nema hvort tveggja sé, þá þurfum við að hafa í huga að árið 2015 — það kemur fram í góðum gögnum sem atvinnuveganefnd fékk frá forstjóra Sláturfélags Suðurlands — fluttum við inn 1.500 tonn af alifuglakjöti. Ef innflutningnum hefði verið breytt, og ég ætla að hafa það til samanburðar með beini, þá eru það 1.500 tonn eða 18% af innanlandsmarkaði. Hvað nautakjötið varðar fluttum við árið 2015 inn 1.400 tonn eða 39% af neyslu landsmanna og gesta okkar. Af svínakjöti fluttum við inn 964 tonn, eða 15% af neyslunni eða ársþörfinni. Aðrar kjötvörur eru um 65 tonn. Samtals eru þetta tæplega 4.000 tonn og ef við tökum sérstaklega nautakjötið er nauðsynlegt að flytja það inn til að uppfylla markaðinn sem hér, og ég endurtek fyrir okkur landsmenn og ferðamenn okkar.

Mjög margt hefur komið fram í vinnu atvinnuveganefndar um útfærslu á þessum innflutningi, tollkvótum og tollum sem lagðir eru á. Til dæmis kom það fram í morgun að menn, í september/október þegar útboðið er, sanka í raun að sér kjöti til að eiga töluvert fram á veturinn. Eins og sá sem situr á forsetastóli núna og leysir mig af sagði réttilega áðan þá nota menn þetta tækifæri, vegna þess að kerfið hjá okkur er meingallað, til að flytja inn dýrustu vöðvana, við skulum segja í svínakjöti, þegar eingöngu vantar kannski beikon, svínarif.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna að á síðasta þingi frekar en því þarsíðasta ræddum við tollamál og breytingar á lögum hvað þau varðar. Þá skilgreindum við það þannig að fulltrúar neytenda gætu komið að og þar var það sett inn að skilgreina þyrfti hvaða hluta af kjöti vantaði; skortur á beikoni segir ekki endilega að allt svínakjöt vanti. En það virðist vera að menn séu að nota þetta á þennan hátt og þannig, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, flæðir þetta fram hjá. Ég vildi að þetta kæmi fram.

Það er greinilega skortur á þessum kjöttegundum miðað við framleiðslu innan lands meðan 3.000 tonn af lambakjöti eru framleidd umfram okkar þarfir, og er þá flutt út. Í því sambandi má nefna að í vinnu nefndarinnar um búvörusamning hefur það komið fram að allt framleitt lambakjöt á Íslandi nýtur stuðnings sem felst í 4,9 milljörðum á ári; ef maður deilir því og margfaldar upp í 3.000 tonnin má segja að íslenskir skattgreiðendur séu að niðurgreiða lambakjöt til útflutnings um 1,6 milljarða kr. á ári. Það er óumdeilt og kemur þar fram.

Í lokin ætla ég að ræða um það sem mjög hefur verið gagnrýnt í tollasamningnum og búvörusamningnum, þ.e. aðstöðu kjúklingabænda og svínabænda. Ég er þeirrar skoðunar, og hef alltaf verið, að ef við erum að taka upp reglur sem Evrópusambandið setur um aðbúnað og dýravernd, og það eigum við auðvitað að gera, verðum við að hafa hlutina sambærilega til að gera hlutaðeigandi bændum kleift að fara eftir þeim reglugerðum og kröfum. Það verður ekki gert nema á sama hátt og Evrópusambandið gerir, þ.e. með styrkjum til viðkomandi til að bæta úr.

Innflutningur á þessu kjöti er að mínu mati nauðsynlegur upp að ákveðnu marki til að skapa samkeppni og val fyrir neytendur. Það á líka að vera hluti af því að reyna að skapa meiri sátt um íslenskan landbúnað milli neytenda og forustumanna og framleiðenda, sem töluvert mikið vantar upp á. Í búvörusamningnum kemur fram að einungis 450 millj. kr. verða veittar á samningstímanum til þeirra breytinga sem þarf að gera vegna nýrra reglugerða.

Það hefur komið fram, og við getum haft alls konar skoðanir á því, að við Íslendingar göngum lengra en til dæmis er gert í Evrópusambandinu hvað varðar aðbúnað. Það hefur komið fram að hvað varðar reglugerð um alifugla þá göngum við töluvert lengra, en eins og bændur segja sjálfir þá eru þeir ekki á móti því, þeir vilja tryggja velferð fuglanna enda byggist það á rökum og staðreyndum, þeir vildu meiri aðlögunartíma og allt sem fylgir því. En rétt er að hafa í huga að mér virðist, miðað við þau loforð sem gefin voru, að ekki sé staðið við það að koma til móts við þá hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég sat einn fund eftir að þessi samningur var gerður, bæði hjá svínabændum og kjúklingabændum og fulltrúum ráðuneytisins. Ég tók eftir því að mikill ágreiningur var um það sem fjallað er um í þessari þingsályktunartillögu, um ályktanir Svínaræktarfélagsins um þessi mál og hef ég ekki enn komist til botns í því hvað er rétt í því sambandi. En í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að í þessum viðaukum, annars vegar það sem við flytjum inn og það sem við fáum að flytja út í staðinn til Evrópusambandsins, er útflutningur á kindakjöti aukinn um 1.200 tonn og fer upp í 3.050 tonn og útflutningur á skyri er aukinn, fer upp í 4.000 tonn. Í staðinn höfum við gefið eftir innflutning á 500 tonnum af svínakjöti, 656 tonnum af alifuglakjöti og 596 tonnum af nautakjöti.

Eins og ég sagði áðan þá er skortur í landinu hvað þessar kjöttegundir varðar, við framleiðum ekki nóg en það ætti auðvitað að vera keppikefli okkar. En áfram held ég því til haga, virðulegi forseti, að ákveðinn innflutningur með ákveðnum vörnum eins og við höfum uppi er nauðsynlegur að einhverju marki til að reyna að skapa sátt, reyna að skapa meiri samkeppni og gefa meiri fjölbreytni. Þar togast reyndar svolítið á í mér það sem ég hef áður sagt um innflutning og ekki innflutning, þ.e. hvernig okkur hér á Íslandi hefur tekist að komast af án sýklalyfja og vaxtarhormóna. Það hefur líka komið fram í vinnu nefndarinnar að við erum mjög framarlega hvað það varðar að það er lítið um salmonellu og kampýlóbakter í kjötvörum okkar, sem er eftirtektarvert og virðingarvert og mjög gott fyrir okkur, en þar hefur (Forseti hringir.) svo verið sýnt fram á dæmi um annað.

Virðulegi forseti. Ég sit ekki í utanríkismálanefnd og mun ekki fjalla um þessa tillögu, en ég vænti þess að atvinnuveganefnd fái að fara í gegnum hana og að við skoðum hana í samhengi við búvörusamninginn og þann samning sem hér er.