145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við eigum það sameiginlegt, allir hv. þingmenn í þingflokki sjálfstæðismanna, að við erum ekki eins. Og ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í Sjálfstæðisflokkinn var sú að ég trúi því að enginn sé eins. Við erum með mismunandi skoðanir og sjónarmið. Það á við í þessum málum eins og öllum öðrum. Síðan er það bara þannig að á endanum þarf hver og einn hv. þingmaður að meta það þegar hann greiðir atkvæði um mál — ég þarf ekki að útskýra það fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem verið hefur hér um allnokkurt skeið, að menn þurfa að meta það hvort það séu meiri hagsmunir eða minni að samþykkja mál þegar að því kemur.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt í umræðu eins og þessari að menn komi fram með sjónarmið og ræði þau, því að við eigum eftir að fara með þessi mál til nefndar og skoða þau o.s.frv. Ég geri það í þessari umræðu eins og flestum öðrum. Ég held að hv. þingmaður geti tekið flestar þær ræður sem ég hef haldið um nokkurn veginn öll mál og séð að ég hef það fyrir reglu að koma með athugasemdir þar mér finnst að eitthvað mætti betur fara. Ég tala ekki fyrir hönd hv. þm. Haraldar Benediktssonar, en ég held að hann nálgist þetta með sama hætti. Fáir, ef nokkrir, þekkja landbúnaðarmálin betur en hv. þm. Haraldur Benediktsson. Ég held að það væri mjög æskilegt ef hans sjónarmið og þekking fengi að heyrast sem víðast.

Ég fór hér yfir nokkra þætti sem mér finnst að mætti laga og reyndi að draga upp stóru myndina. Mér finnst að í allri þessari pólitík ættum við fyrst og fremst að leggja áherslu á að vernda hefðbundinn íslenskan landbúnað. Það er mitt sjónarmið og hefur alltaf verið. Ég tel líka að við eigum að nýta betur þau sóknarfæri sem felast í því. Svo fór ég aðeins yfir (Forseti hringir.) mýtuna um ESB, menn segja t.d. ekki frá því að ef við gengjum í ESB mundu vörur hækka á mjög mörgum (Forseti hringir.) sviðum. En við getum farið betur yfir það síðar.