145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ekki allir eins þó að vísu liti nú út fyrir það um tíma að endurnýjunin í þeim flokki væri tiltölulega einsleit hér á þingi þegar um skeið komu eiginlega engir nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins inn á þing öðruvísi en að þeir væru tiltölulega ungir karlkyns lögfræðingar, frekar frjálshyggjusinnaðir og stundum kenndir við stuttbuxur. Það var kannski meira ákveðið tímaskeið í sögu endurnýjunar þingmanna Sjálfstæðisflokksins en reglan. Sem betur fer, þar er ég hv. þingmanni sammála, eru fjölbreytt sjónarmið uppi í þessum efnum og það gefur rökræðunni gildi að við fáum ólík sjónarhorn á málin, rétt eins og fram kom strax í umræðum hér fyrr í dag um athugasemdir varðandi veitingu afbrigða þegar hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom upp á eftir mér og nálgaðist málin úr allt annarri átt.

Hér höfum við verið að hlýða á annars vegar varaformann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem er ekki alveg hver sem er og mikill málafylgjumaður í þessum efnum, og hins vegar hv. þm. Harald Benediktsson, sem, með fullri virðingu fyrir öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hefur auðvitað yfirburði þegar kemur að þekkingu á þessum málaflokki eftir að hafa gegnt þar lengi trúnaðarstörfum. Ég tel því að spurningar mínar séu alveg réttmætar um það hversu víðtækar og djúpstæðar eru efasemdir/andstaða innan raða þingmanna og þingflokks Sjálfstæðisflokksins við þessa samninga hvora um sig og til samans. Er að teiknast upp sú staða að ekki sé stuðningur við það að afgreiða þessi mál í óbreyttri mynd af hálfu Sjálfstæðisflokksins?