145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Öll samfélög, jafnvel þau vanþróuðustu, byggja á skattheimtu af einhverju tagi. Dugir þar að nefna þá tíund sem hér var við lýði í upphafi Íslandsbyggðar. Eftir því sem samfélög verða siðaðri og þróaðri eflast skattkerfi þeirra. Þar má nefna skattkerfi eins og tekjuskattskerfi, virðisaukaskattskerfi, fjármagnstekjuskattskerfi og auðlindagjöld. Góð samfélög afla skatttekna til þess að auka jöfnuð í samfélögunum, gera þau blómlegri og betri. Við öflum tekna til þess að fjármagna almannaþjónustuna, sem eru spítalarnir, skólarnir, löggæsla, svo að eitthvað af því mikilvægasta sé talið, og við öflum skatta til þess að tryggja jöfnuð með tekjutilfærslum eins og í almannatryggingakerfinu og barnabótakerfinu. Þetta eru kerfi sem byggja á réttindum en ekki ölmusu. Þeim mun betur sem okkur gengur að afla tekna til að hafa almannaþjónustuna sem gjaldfrjálsasta eða ódýrasta og tryggja sem best tekjujöfnun, þeim mun betur vegnar samfélaginu eins og OECD hefur bent ríkjum á, þ.e. að tryggja betur jöfnuð með skattkerfum sínum.

Þess vegna teljum við í Samfylkingunni gríðarlega mikilvægt að standa vörð um þrepaskattskerfi þannig að þeir ríkari greiði hlutfallslega meira og stuðli þannig að jöfnuði í samfélaginu. En við teljum helstu sóknarfærin til þess að efla tekjur ríkissjóðs til að koma á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og barnabótum til allra barna svo að eitthvað sé nefnt, með auknum auðlindagjöldum og að sjálfsögðu með skattlagningu á ferðamenn sem þessari ríkisstjórn virðist fyrirmunað að koma á og er eitt brýnasta verkefnið okkar í skattamálum á næstu missirum.